Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, segir samninganefnd ríkisins ekki geta teygt sig nær kröfum lækna og segir vafasamt að ríkið geti staðið við það sem þegar hefur verið lagt á borðið. Þetta kemur fram á vef RÚV.
Staða kjarasamningaviðræðna við lækna var rædd á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun. Sagði Bjarni í samtali við fréttastofuna að hann stæði við það fullum fetum að það sem boðið hefur verið af hálfu ríkisins séu verulegar kjarabætur. Þá hvatti hann lækna til að upplýsa um kröfur sínar.
„Við höfum í þessum samningaviðræðum boðið launabætur sem bera skýrt merki um að við viljum leysa deiluna en erum ekki til í að ganga að hvaða kröfum sem er, og yfirlýsingar lækna sem við höfum verið að lesa í fjölmiðlum að undanförnu valda mér verulegum áhyggjum verð ég að segja,“ sagði Bjarni og bætti við að þær kröfur sem birst hafa af hálfu lækna séu umfram það sem hægt er að gera væntingar um. Verði gengið að þeim kröfum sé það ekkert nema ávísun á frekari óróa og ósætti á vinnumarkaði.
Bjarni benti á þau vandamál sem komin eru upp, t.d. atgervisflótta í greininni. Það hafi þó verið tekið á þeim vanda með ýmsum öðrum hætti, m.a. með því að stórauka framlög til Landspítalans og annarra heilbrigðisstofnana víða um landið. Þá hafi verið tekin til endurskoðunar tækjakaupaáætlun Landspítalans og veittur milljarður til tækjakaupa á næstu árum.
Hlé hefur verið gert á fundi samninganefnda Læknafélags Íslands og ríkisins sem hófst klukkan 10:30 í morgun. Að sögn Magnúsar Péturssonar, ríkissáttasemjara, munu deiluaðilar hittast aftur klukkan 15, og þá kemur í ljós hvort samningar geti náðst fyrir áramót.
Verkfallsaðgerðir lækna munu hefjast á ný mánudaginn 5. janúar, náist samningar ekki. Þær aðgerðir munu hafa mikla röskun í för með sér á starfsemi Landspítalans, enda munu einstakir hópar lækna þá leggja niður störf í fjóra daga í röð, en ekki í tvo daga í röð eins og fram að þessu.