Ritstjóra DV sagt upp störfum

Hallgrímur Thorsteinsson, ritstjóri DV.
Hallgrímur Thorsteinsson, ritstjóri DV. mbl.is/Þórður

Hallgrími Thorsteinssyni, ritstjóra DV, hefur verið sagt upp störfum. Þetta kemur fram á vef Kjarnans. Jafnframt kemur fram að nokkrum blaðamönnum hafi verið sagt upp. Samkvæmt heimildum Kjarnans eru á meðal þeirra þau María Lilja Þrastardóttir og Sveinbjörn Þórðarson.

Eiga uppsagnirnar að vera hluti af skipulagsbreytingum sem ráðist var í vegna samruna DV og Pressunnar. Sá samruni kemur í kjölfar kaupa Pressunnar, sem er í meirihlutaeigu Björns Inga Hrafnssonar, á um 70 prósentum í DV ehf. Í samtali við mbl.is vildi Björn Ingi ekki tjá sig um málið en segir að tilkynning um það sé væntanleg síðar í dag.

Þá kemur fram á vef Ríkisútvarpsins að Kolbrún Bergþórsdóttir, fyrrverandi blaðamaður á Morgunblaðinu, muni taka við sem annar tveggja ritstjóra DV. Ekki hefur verið gefið upp hver hinn ritstjórinn er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert