„Sá hlær best sem síðast hlær“

Eggert Skúlason er lengst til hægri.
Eggert Skúlason er lengst til hægri. ljósmynd/SteinarH

„Ég segi nú bara sá hlær best sem síðast hlær,“ segir Eggert Skúla­son, nýráðinn ritstjóri DV, um orð blaðamannsins Jó­hanns Páls Jó­hanns­sonar, í viðtali í Kast­ljósinu í gær, þar sem hann sagði það hafa verið brandara á ritstjórninni hvort Eggert yrði ekki gerður að næsta ritstjóra.

Líkt og áður hefur komið fram fól stjórn DV Eggerti að vinna stefnu­mót­un fyr­ir út­gáfu­fé­lag DV og koma með til­lög­ur að því hvernig efla mætti blaðið og fjölmiðilinn. Í skýrslunni fengu DV og dv.is falleinkunn og kom m.a. fram að rit­stjórn­ar­stefnu DV þyrfti að end­ur­skoða. Þá var einnig borin upp sú hugmynd að blaðamenn myndu taka þátt í kostnaði við málshöfðanir vegna skrifa þeirra.

Í samtali við mbl segir Eggert að blaðið eigi áfram að vera aðgangshart og gagnrýnið en tekur þó einnig undir þau orð Kolbrúnar Bergþórsdóttur, annars nýráðins ritstjóra, að blaðið eigi jafnframt að vera skemmtilegt. Þá tekur hann fram að greiðsluþátttaka blaðamanna hafi einungis verið hugmynd, en ekki tillaga. Grundvallarmunur sé þar á.

Skýrslan nýtist vel.

Eggert segir starfsmenn blaðsins hafa komið með mörg góð rök við vinnu skýrslunnar og verið sér sammála í mörgum atriðum. „Ég held að skýrslan muni nýtast vel þegar ég tek til starfa,“ sagði Eggert. „Skýrslan var skrifuð í þeim anda að benda á þau atriði sem betur mættu fara og það væri mjög sérstakt ef skýrsluhöfundur tæki ekki mið af því í störfum sínum,“ segir Eggert.

Treystir sér til þess að vinna með öllum

Aðspurður um viðbrögð við gagnrýni Jóhanns Páls og Jóns Bjarka Magnús­sonar í Kastljósinu segist Eggert treysta sér til þess að vinna með öllum. „Ef einhver á DV treystir sér ekki til að vinna með mér verður það bara rætt sérstaklega en það er ekki forgangsatriði svona yfir áramót,“ segir hann. Aðspurður hvort sérstaklega verði rætt við fyrrnefnda starfsmenn segir hann að rætt verði við alla. „Ég geri ráð fyrir að allir vilji halda áfram í starfi en ef einhver lýsir vilja til annars tek ég að sjálfsögðu tillit til þess,“ segir hann. 

„Ég hef fréttastýrt og unnið á mörgum ritstjórnum og geri ekki kröfu til þess að blaðamenn séu sammála mér,“ segir hann. „Það er ekki samstarfsskilyrði. Fólk má hafa sínar skoðanir,“ segir Eggert.

Gísli Freyr Valdórsson í Héraðsdómi Reykjavíkur. Í forgrunni er Jóhann …
Gísli Freyr Valdórsson í Héraðsdómi Reykjavíkur. Í forgrunni er Jóhann Páll Jóhannsson, blaðamaður DV, sem mikið hefur fjallað um lekamálið undanfarin misseri. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert