Vinsælustu myndskeið ársins

Eldgos í Holuhrauni, stórbruni í Skeifunni, klukkubreytingar, óveður, 248 kr., lögreglumenn í átökum og sögur af venjulegu fólki að gera óvenjulega hluti koma fyrir í þeim myndskeiðum sem nutu hvað mestra vinsælda á mbl.is á árinu sem nú er á enda. Við tókum saman nokkur þeirra sem stóðu upp úr.

Stórbruni varð í Skeifunni í júlí og þar tók Golli, ljósmyndari mbl.is, ótrúlegar myndir af brunanum með dróna. 

Gosið í Holuhrauni hefur verið ein stærsta frétt ársins og Árni Sæberg, ljósmyndari mbl.is, náði mögnuðum myndum af eldsumbrotunum í byrjun september.

Veðurguðirnir voru í stuði í desembermánuði og létu landsmenn finna fyrir því eins og sjá má í þessu myndskeiði þar sem þrautseigur hjólreiðamaður fer á kostum.

Hjónin Hafsteinn Steinsson og Elín Kristjánsdóttir Linnet lentu í þeim ótrúlegu aðstæðum að þurfa að taka á móti barni á Vesturlandsveginum í morgunumferðinni á þriðjudagsmorgni. Saga þeirra vakti mikla athygli.

Þjóðargersemin RAX var með sýningu í Ljósmyndasafni Reykjavíkur sem sló öll met. 

Mikill áhugi hefur verið á smíði Brynjars Karls á 6 metra langri eftirlíkingu af Titanic. Brynjar Karl, sem er 11 ára gamall og einhverfur, hefur unnið að smíðinni frá því í sumar en skipið mun verða hið stærsta sinnar tegundar í heiminum.  

 Listapúkinn Þórir Gunnarsson sló í gegn með myndum sínum af fræga fólkinu.

Myndskeið sem almenningur tekur á síma sína af myndrænum atburðum ná oft mikilli útbreiðslu. Hér má myndskeið sem Friðrik Grétarsson tók í mars þar sem lögreglumenn sjást yfirbuga mann sem var handtekinn grunaður um að aka bíl undir áhrifum vímuefna og án ökuréttinda í Árbænum.

Mikill áhugi var á að virða fyrir sér hvernig nóvembermorgunn í Reykjavík gæti litið út færi svo að klukku landsmanna yrði seinkað um klukkustund.

Þá voru landsmenn spenntir fyrir að skella sér í leghálsskoðun með Sögu Garðars. Eðlilega.

Hugmyndir um að innrétta flutningagáma sem íbúðir vöktu mikla athygli snemma árs.

mbl.is heimsótti stórhuga gámasmiði.

Það var söguleg stund þegar Hafmeyjan eftir Nínu Sæmundson sneri aftur í Tjörnina í júlímánuði. Móttaka styttunnar var eitt síðasta embættisverk Jóns Gnarrs sem borgarstjóra.

Eldri og samskonar stytta var sem kunnugt er sprengd í loft upp árið 1960 af óþekktum skemmdarvargi. 

Hin ellefu ára gamla Kristrún Bender var hætt komin í vetur þegar hún fékk alvarlega blóðeitrun skömmu eftir að hún hafði greinst með krabbamein. Síðan hefur bati hennar verið ótrúlegur en hún stóð uppi sem sigurvegari í Gæðingakeppni Hestamannafélagsins Harðar í barnaflokki og keppti fyrir hönd félagsins á Landsmóti hestamanna í sumar.

Lesendur mbl.is kunnu vel að meta sögu Kristrúnar.

Nýr meirihluti í borgarstjórn Reykjavíkur var kynntur til sögunnar í Elliðaárdalnum hinn 11. júní. Dagur B. Eggertsson kynnti samstarf Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri-grænna og Pírata.

Skömmu áður höfðum við hitt Dag á sama stað í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna þar sem hann útskýrði dálæti sitt á staðnum. 

Máltækið „það er ekki hundi út sigandi“ hefur sjaldan átt betur við en í myndskeiði hinnar dönsku Rebeccu Ostenfeld sem sendi okkur þetta myndskeið af veðurofsanum á Hólum í Dalasýslu hinn tíunda desember. Myndskeiðið náði gríðarlegri útbreiðslu.

Hávísindaleg könnun mbl.is á því hvaða máltíðir fást fyrir 248 kr. í Bónus vakti athygli, svo ekki sé meira sagt. 

Fólk kann vel að meta þegar myndskeið koma upplýsingum til skila á stuttum tíma. 50 sekúndna myndskeiðin hafa notið mikilla vinsælda og hér má sjá samantekt á óveðri sem gekk yfir S-Vesturland í lok september.

Tvær ónotaðar kennslustofur við Rimaskóla í Grafarvogi fuðruðu upp í apríl. Slökkviliði gekk vel að ráða niðurlögum eldsins en stofurnar gereyðilögðust. Síðar viðurkenndi 12 ára drengur að hafa kveikt í af gáleysi.

St. bernharðshvolpurinn Lilla krúttaði sig inn í hjörtu landsmanna síðla árs en hún missti móður sína og systkini í fæðingunni. Varúð, hér gæti krúttskammturinn hreinlega orðið þér ofviða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert