„Gengur í báðar áttir“

Margir hafa kvartað yfir því að þeir fái minna til …
Margir hafa kvartað yfir því að þeir fái minna til baka fyrir vörur en þeir greiddu vegna verðlækkana mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Mismunur á kaup- og skilaverði á vörum í verslunum getur leitt af sér nokkurt fjártjón fyrir viðskiptavini. Dæmi eru um að verð á vinsælum jólagjöfum hafi lækkað eftir jól, en þeir sem hyggjast skila fá aðeins gangverð fyrir í stað þess sem upphaflega var greitt. Gunnar Ingi Sigurðsson, framkvæmdastjóri Hagkaupa, bendir á að allir sem framvísi kvittun fái sama verð til baka. Auk þess gangi breytingar í báðar áttir þannig að kaupendur fái meira til baka þar sem verð hafa hækkað.

„Bækur eru nánast með dagverð í desember og verðið á þeim getur rokkað talsvert upp og niður eins og á hverri annarri samkeppnisvöru,“ segir Gunnar Ingi.

Þannig hefur tveimur myndum af kassakvittunum verið deilt yfir 400 sinnum þar sem verðlækkun eftir jól veldur því að aðilar fá minna fyrir vöruna við skil en upphaflega var greitt fyrir hana, en önnur myndanna sýnir mismun á kaup- og skilaverði bókarinnar Kamp Knox. Myndirnar má sjá hér að neðan.

Sama verð ef komið er með kvittanir

Gunnar segir skilareglur verslunarinnar vera mjög skýrar og ef menn haldi eftir kvittun fái þeir sama verð til baka og greitt var.

„Þetta er mjög lifandi markaður og auðvitað geta verið tilboð eina helgina og ekki aðra. Ef menn koma með kvittanir eiga þeir hins vegar að fá sama verð til baka. Síðan geta alltaf komið upp undantekningartilvik eins og þarna gerðist og þá ráðum við fram úr því hverju sinni, en ég held að enginn eigi að þurfa að fara sár frá borði frá okkur,“ segir Gunnar.

Gangverð fyrir vörur með skilamiða

Þeir sem eru aðeins með skiptimiða á vörum en ekki kvittun, eins og ætla má að sé raunin í tilfelli þorra þiggjenda jólagjafa, fá hins vegar ekki upprunalegt verð til baka heldur aðeins gangverð þegar vörunni er skilað. Gunnar segir viðskiptakerfi verslunarinnar eins og staðan er í dag einfaldlega ekki bjóða upp á að haldið sé utan um hvert verðið var þegar hver vara var keypt. Svokölluð „skilaskiptastrikamerki“ hafi ekki verið tekin upp í versluninni, en slíkt sé þó í skoðun.

„Kvittunin er það eina sem við höfum í höndunum til að sannreyna upprunalega verðið. Þessi skilastrikamerki tíðkast frekar hjá minni fyrirtækjum, en þar þekkjast dæmi þess að þú getir keypt strikamerki á söluna sem slíka,“ segir Gunnar.

Fjöldinn gerir kerfið flóknara

Hann segir fjöldann sem kemur í verslanir Hagkaupa hins vegar gera fyrirtækinu erfiðara fyrir að halda úti slíku kerfi.

„Þegar þú ert með hátt í eina komma þrjár milljónir sala þá þarf að vera nokkuð nákvæmt innan hvaða bils á að leita og hreinlega ekki hægt á skilakassa í verslunum þannig að segja má að kerfið okkar í rauninni ráði ekki við það. Við stefnum hins vegar á að skipta um viðskiptakerfi á árinu sem munu gefa okkur aukin tækifæri til að þjónusta viðskiptavini okkar betur.“

Gengur í báðar áttir

Gunnar bendir á að í þeim tilfellum þar sem verð hækki fái viðskiptavinir meira til baka, þannig að lækkanir séu ekki það eina sem telji.

„Það eru hins vegar færri sem segja frá því, en þetta gengur í báðar áttir. Vörur eru oft keyptar á tilboði fyrir jólin og fólk fær síðan til baka fullt verð,“ segir Gunnar.

Hann fullyrðir að kvartanir hafi ekki verið fleiri eftir nýliðin jól heldur en undanfarin ár.

„Það er bara alltaf opnari umræða og fleiri staðir þar sem fólk getur tjáð sig og þá fer þetta frekar í loftið. Við tökum hins vegar alltaf vel á hverju máli fyrir sig.“

Ekki náðist í forsvarsmenn Neytendastofu vegna málsins, en þar er lokað í dag. 

Gunnar segir að nánast sé „dagverð“ á bókum í desember.
Gunnar segir að nánast sé „dagverð“ á bókum í desember.
Gunnar Ingi Sigurðsson, framkvæmdastjóri Hagkaupa
Gunnar Ingi Sigurðsson, framkvæmdastjóri Hagkaupa mbl.is/Friðrik Tryggvason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka