Sigrún tók við lyklavöldum

Sigrún tekur við lyklunum af Sigurði Inga Jóhannssyni.
Sigrún tekur við lyklunum af Sigurði Inga Jóhannssyni. mbl.is/Árni Sæberg

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, tók við lyklum að ráðuneytinu úr höndum Sigurðar Inga Jóhannssonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í dag.

Sigrún tók við embætti umhverfis- og auðlindaráðherra á ríkisráðsfundi á gamlársdag og kom í ráðuneytið í dag. Að lokinni lyklaafhendingu heilsaði nýr ráðherra upp á starfsfólk sitt.

Sigrún hefur ráðið Ingveldi Sæmundsdóttur aðstoðarmann sinn en Ingveldur var áður aðstoðarmaður Sigurðar Inga í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.  

Sigrún er tíundi ráðherrann í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Sigrún var kosin alþingismaður fyrir Framsóknarflokkinn í Reykjavíkurkjördæmi norður þann 27. apríl 2013.

Hún er fædd 15. júní 1944. Eiginmaður hennar er Páll Pétursson, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, og alls eiga þau fimm uppkomin börn. Sigrún lauk kvennaskólaprófi og landsprófi frá Kvennaskólanum í Reykjavík 1961, prófi frá Húsmæðraskóla Reykjavíkur 1962 og stundaði nám við öldungadeild Menntaskólans við Hamrahlíð 1974-1976. Þá lauk hún BA-prófi í þjóðfræði og borgarfræðum frá Háskóla Íslands árið 2006.

Sigrún á að baki farsælan feril í stjórnmálum auk þess að búa að víðtækri reynslu úr atvinnulífinu, segir í frétt á vef umhverfisráðuneytisins. Sigrún hefur gegnt fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir ríki og borg og sat í borgarstjórn Reykjavíkur í 16 ár, m.a. sem formaður borgarráðs í 6 ár og formaður borgarstjórnarhóps Reykjavíkurlistans frá 1994 til 2002. Hún hefur setið í stjórnum margra fyrirtækja og stofnana borgarinnar og leitt mikilvæg verkefni, t.d. á sviði mennta- og fræðslumála. Sigrún var kjörin á þing vorið 2013 og hefur setið í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis og verið formaður Þingvallanefndar auk þess að gegna embætti þingflokksformanns.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert