Bíómiðinn lækki um 5-15 krónur

Bíógestir greiða sama verð fyrir bíómiðann þrátt fyrir skattalækkun, enn …
Bíógestir greiða sama verð fyrir bíómiðann þrátt fyrir skattalækkun, enn sem komið er. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Kvikmyndahús hafa ekki lækkað miðaverð sitt þrátt fyrir lækkun virðisaukaskatts og þau bíða eftir birgjum áður en ljóst verður hvort verð í sjoppum þeirra lækkar vegna afnáms sykurskatts. Fulltrúar þeirra segja að breytingin myndi aðeins þýða 5-15 krónu lækkun á bíómiðum.

Við áramótin lækkaði efra þrep virðisaukaskatts sem lagt er á bíómiða úr 25,5% í 24%. Þá var sykurskattur afnuminn en kvikmyndahúsin selja sætindi í sjoppum sínum. Því mætti ætla að lækkun og afnám þessara gjalda hefðu áhrif á verðlagningu kvikmyndahúsa. Fulltrúar þeirra kvikmyndahúsa sem mbl.is hefur haft samband við í dag hafa þó ekki breytt sínu verði enn sem komið er.

Að sögn Alfreðs Ásberg Árnasonar, framkvæmdastjóra Sambíóanna sem eiga og reka fimm kvikmyndahús, er verið að skoða hvort að verði bíómiðans verði breytt. Miðað við breytinguna á virðisaukaskattinum ætti verðið þó aðeins að lækka um 15 krónur. Þá bendir hann á að almennt miðaverð hafi ekki hækkað frá árinu 2012 og almennar verðhækkanir hafi ekki orðið á miðum frá árinu 2011.

Davíð Þórisson, rekstrarstjóri kvikmyndahúsa Senu sem á og rekur Smárabíó og Háskólabíó, hefur svipaða sögu að segja. Hann segist ekki vita hvort og þá hversu mikið verð í sjoppunum kemur til með að lækka eða breytast þar sem hann hefur ekki enn fengið upplýsingarnar sem hann óskaði eftir frá birgjum fyrir jól. Hann gerir þó ráð fyrir að ef til verðbreytinga komi, verði það í þessari viku.

Hvað varðar bíómiðana segir Davíð að breytingarnar hafi í för með sér um það bil fimm til fimmtán krónu verðlækkun á almennu verði. Enn eigi þó eftir að taka ákvörðun um framkvæmd breytinganna.

Virðisaukaskattur á kvikmyndir óvíða hærri en hér á landi

Myndform á og rekur Laugarásbíó í Reykjavík en Magnús Gunnarsson, framkvæmdastjóri bíósins, segist einnig bíða eftir að sjá hvort verðbreytingar verði á nýjum vörum frá birgjum. Verði á bíómiðum og í sjoppu hafi ekki verið breytt ennþá. Hann bendir á að virðisaukaskattur á bíómiða á Íslandi sé einhver sá hæsti í heiminum.

„Venjulega er bíómiðinn í neðra skattþrepi alls staðar nema á Íslandi. Svo er músík og bækur í lægra þrepi en ekki kvikmyndir. Þetta er mjög sérstakt,“ segir Magnús.

Aðeins í Danmörku sé virðisaukaskattur á bíómiða eins hár og á Íslandi af Norðurlöndunum. Í Svíþjóð, Noregi og Finnlandi sé skattlagningin á bilinu 6-9%. Í Danmörku er hann 25%.

Þá bendir Magnús á að miðaverð á Íslandi sé með því lægra sem gerist þrátt fyrir þessa ofurskattlagningu. Þannig segir hann almennt miðaverð í Danmörku sé 1.800 krónur og 2.700 á þrívíddarmyndir. Í Svíþjóð kosti almennar sýningar 1.800 krónur og þrívíddin 2.500 krónur. Í Laugarásbíói sé almenna verðið 1.350 krónur og 1.550 fyrir þrívíddarsýningar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka