„Sá hlær best sem á spilltustu vinina“

Gísli Freyr Valdórsson í Héraðsdómi Reykjavíkur. Í forgrunni er Jóhann …
Gísli Freyr Valdórsson í Héraðsdómi Reykjavíkur. Í forgrunni er Jóhann Páll Jóhannsson, blaðamaður DV, sem mikið hefur fjallað um lekamálið á miðlinum. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Jóhann Páll Jóhannsson, blaðamaður á DV, hefur sagt upp störfum. Þessu greinir hann frá á facebooksíðu sinni. Segir hann fjársterk öfl í íslensku samfélagi hatast við frjálsa fjölmiðlun og hamast gegn henni á öllum vígstöðvum. Yfirtakan á DV sé ein ljótasta birtingarmynd þess. „Sá hlær best sem á spilltustu vinina,“ skrifar hann, og vitnar þar í orð Eggerts Skúlasonar, nýráðins ritstjóra blaðsins.

Segist Jóhann ekki geta hugsað sér að vinna á fjölmiðli þar sem „framkvæmdastjóri og eigandi láta skjöl innan af ritstjórninni berast til auðmanns úti í bæ, sama auðmanns og keypti hlut í blaðinu til að kæfa óþægilega umfjöllun um sjálfan sig. Þar sem aðaleigandi blaðrar um launamál undirmanns síns við óviðkomandi aðila og reynir að etja starfsmönnum hverjum gegn öðrum og þar sem blaðamenn sem dirfast að spyrja spurninga um eignarhald DV og ásetning nýrra eigenda eru látnir fjúka“.

Þá segir hann skjólstæðinga Sigurðar G. Guðjónssonar hæstaréttarlögmanns, sem er einn af nýjum eigendum miðilsins, geta skálað fyrir því að hann sé kominn í eigendahóp DV „um leið og múrinn milli ritstjórnar og eigenda er að hverfa“.

Öfl tengd Framsóknarflokknum vilji „knésetja DV“

Jafnframt segir hann fleiri eiga hagsmuna að gæta, en lengi hafi legið fyrir að öfl tengd Framsóknarflokknum vilji „knésetja DV, enda hefur blaðið fjallað með krítískum hætti um mannréttindamál, spillingu, útlendingahatur, valdníðslu og ljúgandi ráðamenn.

Eftir að blaðið skipti um eigendur í ágúst hefur gegndarlaust niðurrif átt sér stað. Nú eru skemmdarverkin á lokastigi. Björn Ingi Hrafnsson, áhrifamaður í Framsóknarflokknum, hefur eignast meirihluta í DV og gert vin sinn úr sama flokki, Eggert Skúlason, að ritstjóra“.

Loks segir hann nýjan ritstjóra hafa tilkynnt það á fréttafundi á föstudag að blaðamennska á borð við þá sem tíðkaðist í máli Hönnu Birnu yrði ekki liðin á hans vakt, en Jóhann Páll hefur mikið fjallað um lekamálið síðustu mánuði.

Uppfært kl. 11:50:

Eggert Skúlason, ritstjóri DV, skrifaði í pistli á facebooksíðu sinni að honum þætti miður að Jóhann Páll hefði sagt upp, enda væri hann skarpur og öflugur blaðamaður. Þá sagðist hann þurfa að leiðrétta frásögn Jóhanns Páls frá fréttafundinum á föstudag, en þá hefði hann aðeins sagt að honum þætti óþarfi að birta allt það magn frétta sem blaðið og vefmiðillinn gerði um lekamálið, enda hefði ekki verið þörf á því. 

„Ég fylgdist með umfjöllun um þetta mál og endalausar fréttir hreinlega rugluðu mig í ríminu. Ég sagði að ég hefði birt allar fréttir sem hefðu haft að geyma viðbótarupplýsingar, en fréttaflóðið fannst mér um tíma óþarflega mikið. DV mun halda áfram að fjalla um lekamálið og leiða það mál til lykta, eftir því sem við komumst yfir upplýsingar. Því geta lesendur og blaðamenn DV treyst.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka