Bílageymslan brunagildra

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins krefst þess að vatnsúðakerfið verði lagfært og brunahólfun …
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins krefst þess að vatnsúðakerfið verði lagfært og brunahólfun á milli bílageymslu og bensínstöðvar. mbl.is/Ómar

Eldvarnir í bílageymslu í Hamraborg 14-38 í Kópavogi hafa verið óviðunandi um langt skeið. Um miðjan desember ákvað slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins að loka efri hluta bílageymslunnar til að tryggja öryggi íbúa. Til stóð að loka geymslunni í dag en því hefur verið frestað vegna fundar sem íbúar munu eiga með Kópavogsbæ á fimmtudag.

Sviðsstjóri umhverfissviðs Kópavogsbæjar sendi Jóni Viðari Matthíassyni, slökkviliðsstjóra höfuðborgarsvæðisins, bréf síðdegis í gær, þar sem farið er þess á leit að fyrirhugaðri lokuð bílageymslunnar yrði frestað til 15. febrúar. 

Í svarbréfi Jóns Viðars kemur fram, að fallist sé á beiðni Kópavogsbæjar um frest. Frestunin sé hins vegar háð því að samþykkt fyrirhugaðs fundar Hamraborgarráðs verði með þeim hætti að hægt verði að vinna málið áfram til lausnar. Verði það ekki mun hluta bílageymslunnar verða lokað þriðjudaginn 13. janúar nk.

„Bent skal á að þrátt fyrir að lokun sé frestað stendur ákvörðun slökkviliðsstjóra um lokun óbreytt. Fari málið á einhverju stigi í þæfing eða óeðlilegar tafir verður bílageymslunni lokað,“ segir í svarbréfi Jóns Viðars.

Yfir 200 íbúðir

Um 220 íbúðir eru í Hamraborg 14-38 og myndi lokunin snerta mörg hundruð íbúa á svæðinu. Jón Viðar segir í samtali við mbl.is að tilgangurinn með þessum aðgerðum sé að knýja á um nauðsynlegar úrbætur. Verði ekkert að gert verði efstu hæð geymslunnar lokað til að byrja með.

Brot á eldvörnum teljast margítrekuð og snúa ágallar eldvarna fyrst og fremst að því að hvorki sé virkt vatnsúðakerfi í geymslunni né brunahólfun að bensínstöð, segir í bréfum sem Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins sendi Hamraborgarráði, sem er íbúaráð, 15. desember sl. Þá kemur fram að hætta geti skapast á stórfelldum eldsvoða í geymslunni. Þess er krafist að vatnsúðakerfið verði lagfært og brunahólfun á milli bílageymslu og bensínstöðvar.

Snýst um öryggi íbúanna

„Ástæðan fyrir því að við stöndum í þessu er fyrst og fremst þeirra öryggi [íbúanna],“ segir Jón Viðar. Vatnsúðakerfið hafi verið óvirkt áratugum saman og slökkviliðið hafi reynt að fylgja málinu eftir af mikilli þolinmæði. Nú hafi hins vegar verið komið nóg. Hann tekur fram að húsið sé stórt og mikið og þar búi fjölmargir. 

„Það sem við viljum ná fram er að það verði gerður samningur við einhvern verktaka til þess að koma þessu í lag,“ segir Jón Viðar. Hann bætir við að ef einhver lending sé í sjónmáli þá sé slökkviliðið reiðubúið að sýna biðlund.

„Okkar ávinningur er að það verði lagað sem á að laga og menn setji það í farveg, þá getum við unnið með mönnum í því. En við getum ekki látið þennan hlut dragast mikið lengur,“ hann.

Aðspurður segir Jón Viðar að mikil hætta geti skapast ef eldur kvikni t.d. í bifreið í geymslunni. „Ef það er ekki vatnsúðakerfi þá er mikil hætta ef það kviknar í einum bíl að það hreinlega fari í aðra bíla. Það er gífurlega erfitt verkefni að glíma við í fyrsta lagi. Svo er líka mikil hætta á að reykurinn sem þar er fari inn í húsið og íbúðir. Þetta er ekkert smáhýsi,“ segir Jón viðar.

Deilt um sex milljónir

Unnsteinn Fannar Ingólfsson, íbúi í Hamraborg, segir í samtali við mbl.is, að samþykkt hafi verið á fundi Hamraborgarráðsins 27. nóvember sl. að taka tilboði verktaka að upphæð 23,5 milljónir króna í endurnýjun vatnsúðakerfis í bílageymslunni og tilboði verkfræðistofu um að hafa eftirlit með uppsetningunni, en tilboðið nemur 850.000 kr. Heildarkostnaður nemur því samtals 24,3 milljónum króna. Þá var Kópavogsbæ falið að ganga til samninga við verktakann á grundvelli tilboðsins og hafa umsjón með verkinu í samráði við stjórn Hamraborgarráðsins. Fulltrúi Kópavogsbæjar sat fundinn, en bærinn er eigandi 25 íbúða í Hamraborginni.

Unnsteinn segir hins vegar að íbúar séu ósáttir við kröfu Kópavogsbæjar um „sex milljón króna opinn tékka“, eins og hann orðar það.

„Kópavogsbær er búinn að gangast við þessum tilboðum sem hljóða upp á 24,3 [milljónir] en þeir vilja samt frá heimild frá okkur til þess að fara í framkvæmdir allt að 30 milljónum, sem við getum ekki skilið af hverju í ósköpunum þeir þurfa,“ segir Unnsteinn. Aðspurður segir hann að þetta hafi aldrei verið útskýrt fyrir íbúunum. Svona kostnaðarauki sé úr öllu samhengi. 

„Þetta er skrifað á að við íbúarnir séum ósamvinnuþýðir, en við samþykktum að fara í þessar framkvæmdir,“ bendir Unnsteinn. Þarna sé Kópavogsbær að þröngva í gegn framkvæmdum í óþökk íbúa. „Þetta er ekki spurningin um peninginn, þetta er spurningin um prinsippið. Að láta ekki bæinn endalaust vaða yfir [fólk],“ segir Unnsteinn. 

Vilja frest til 15. febrúar vegna íbúafundar

Í bréfi sem sviðsstjóri umhverfissviðs Kópavogsbæjar sendi slökkviliðsstjóranum kemur fram, að Kópavogsbær hafi þegar boðið út framkvæmdir nýs vatnsúðunarkerfis. Ekki hafi verið unnt að  ganga frá samningi við verktaka vegna framkvæmdarinnar þar sem tillaga þess efnis hafi ekki verið samþykkt í Hamraborgarráðinu, þannig að unnt væri að vinna frekar með tillöguna.

Þá segir, að boðað hafi verið til fundar að nýju með íbúum hinn 8. janúar nk. kl. 20, þar sem borin verði upp tillaga sem geri Kópavogsbæ kleift að vinna frekar að samningi við verktaka.

„Það liggur þó ekki fyrir að svo stöddu hvort verktaki sé reiðubúinn að taka verkið að sér í samræmi við niðurstöður útboðsins. Fáist samþykki á fundinum 8. janúar nk. verður unnt að leita samninga við verktaka en gera má ráð fyrir að það taki nokkurn tíma og er af þeim sökum óskað frestunar til 15. febrúar nk.,“ segir í bréfinu. 

Loks er óskað eftir því að krafa slökkviliðsstjóra um brunahólfun verði sérstaklega skilin frá til þess að unnt verið að koma vatnsúðakerfinu í lögmælt horf hið fyrsta. Í framhaldinu yrði það metið hvað væri skynsamlegast að gera til að mæta kröfum um brunahólfun.

Hamraborg í Kópavogi er ekkert smáhýsi.
Hamraborg í Kópavogi er ekkert smáhýsi. mbl.is/Ómar
Bensínstöð hefur verið í kjallaranum í áratugi.
Bensínstöð hefur verið í kjallaranum í áratugi. mbl.is/Ómar
mbl.is/Ómar
Verði ekki gripið til lagfæringa verður efstu hæð geymslunnar lokað …
Verði ekki gripið til lagfæringa verður efstu hæð geymslunnar lokað í fyrstu. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert