Viss um jákvæð áhrif „klukkubreytingar“

Erfitt getur verið fyrir ungt fólk að vakna á morgnanna …
Erfitt getur verið fyrir ungt fólk að vakna á morgnanna í skammdeginu. mbl.is/AFP

„Við erum að fara að skoða muninn á svefnvenjum Íslendinga í skammdeginu og í birtu og hvaða áhrif það hefur á okkur á veturna að fá ekki morgunbirtuna. Þetta er líka gert til þess að kortleggja svefnvenjur Íslendinga sem ekki hafa verið rannsakaðar með þessum hætti áður.“

Þetta segir sálfræðingurinn Erla Björnsdóttir en hún er meðal þeirra sem standa að rannsókn á klukkuþreytu. Í lok vikunnar verða sendir út spurningalistar til rúmlega 10 þúsund Íslendinga sem verða spurðir um svefnvenjur sínar. Að sögn Erlu er markhópurinn Íslendingar, tíu ára og eldri á öllu landinu. Rannsóknin verður gerð núna í janúar og aftur í júní. Að rannsókninni stendur þverfaglegt teymi sálfræðinga, lífeðlisfræðinga og lyfjafræðinga við Háskóla Íslands.

Munar 90 mínútum á innri klukku og staðartíma

Að sögn Erlu eru unglingar og ungt fólk með svokallaða „seinkaða dægursveiflu“ sem er hluti af líkamsstarfsemi þeirra og þýðir að þau fara seinna að sofa á kvöldin og eiga síðan erfitt með að vakna á morgnana. „Þá hjálpar ekki til að við séum að þessum ranga tíma,“ segir Erla. „Það munar alveg níutíu mínútum á okkar innri klukku og staðartíma í mesta skammdeginu. Það þýðir að þegar við erum að fara á fætur klukkan sjö er klukkan aðeins hálfsex á okkar innri tíma. Það getur verið sérstaklega erfitt fyrir ungt fólk.“  Erla segir að mögulegt sé að tengja of fljóta klukku við brottfall úr framhaldsskólum.

„Við fáum þá tilfinningu í okkar starfi að unglingar og ungt fólk eigi oft erfitt með að vakna í skammdeginu og falli á mætingu og annað. Jafnvel verður hægt að tengja þetta við mikið brottfall úr framhaldsskólum í ákveðnum tilvikum. Jafnframt mun rannsóknin gefa okkur svör við fullt af spurningum og ómetanleg gögn ef til þess kæmi að klukkunni yrði breytt,“ segir Erla. 

„Þá gætum við endurtekið rannsóknina og séð hvort það hafi einhver áhrif.“

Þarf að skýra mikla notkun Íslendinga á svefnlyfjum

Að sögn Erlu verður einnig skoðað í rannsókninni hvort hægt sé að tengja svefnlyfjanotkun Íslendinga við þessa klukkuþreytu. „Við eigum Norðurlanda- og næstum því heimsmet í svefnlyfjanotkun miðað við höfðatölu. Sú tala hækkar með hverju árinu og það er gríðarlegt áhyggjuefni. Rannsóknir hafa sýnt það ítrekað að langvarandi notkun svefnlyfja er ekki bara gagnslaus heldur getur verið skaðleg,“ segir Erla. „Við verðum að fá skýringar á af hverju við notum svona miklu meira af svefnlyfjum en nágrannaþjóðir okkar.“

Erla segir að jafnframt verði skoðað hvort notkunin á svefnlyfjum breytist eitthvað á sumrin. 

Að sögn Erlu hafa rannsóknir sýnt að Íslendingar fari klukkutíma seinna að sofa en nágrannaþjóðir okkar og sofi jafnframt mjög stutt. „Unglingar á Íslandi þurfa samt að mæta á sama tíma í skólann og unglingar í nágrannaþjóðunum en fá minni svefn. Að stytta svefninn um klukkutíma getur haft gríðarlega mikil áhrif. Svefninn er gríðarlega virkt ferli, vaxtarhormón myndast, við vinnum úr áreitum og festum upplýsingar í minni svo eitthvað sé nefnt.Það getur haft mjög slæm áhrif að missa svefn.“

Breyting klukkunnar hefði góð áhrif

Eins og áður kom fram verða spurningalistar sendir út til tíu þúsund Íslendinga í lok vikunnar. Því má gera ráð fyrir að fólk fái listana eftir helgi. Þeir sem taka þátt fara inn á ákveðna vefslóð og svara spurningunum rafrænt. 

Aðspurð hvort hún telji að það að breyta klukkunni gæti haft góð áhrif á svefnvenjur Íslendinga segir Erla að það gæti vel verið.

„Það er ekki til nein töfralausn, en við erum sannfærð um það að breyta klukkunni hefði klárlega áhrif til góðs, sérstaklega yfir dimmustu mánuðina. Það að fá morgunbirtuna myndi hjálpa fólki við að stilla líkamsklukkuna rétt.“

Vekjaraklukkan getur verið versti óvinur fólks snemma á morgnanna í …
Vekjaraklukkan getur verið versti óvinur fólks snemma á morgnanna í skammdeginu. AFP
Erla Björnsdóttir
Erla Björnsdóttir Þorkell Þorkelsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert