Veðurstofa Íslands spáir suðaustan stormi á sunnan- og vestanverðu landinu í kvöld, 6. janúar, rigningu á láglendinu og slyddu á heiðum og fjöllum. Þá er gert ráð fyrir að hvessi fyrir norðan og austan, en sennilega ekki fyrr en á miðnætti.
Teitur Arason, veðurfræðingur hjá Veðurstofunni, segir að veðrið í kvöld verði ónýtt til hátíðahalda. „Það er hugsanlegt, ef menn eru snemma í því, að það sleppi á norðan- og austanverðu landinu, í norðausturfjórðungnum,“ segir hann um þrettándabrennur, en þar verði veður ekki verulega vont fyrr en líður á kvöldið.
Teitur spáir leiðindaveðri á miðvikudag og fimmtudag, allhvössum eða hvössum vindi, með skúrum og éljum á miðvikudag og éljum á fimmtudag. Hann segir óljóst hvað gerist í framhaldinu.
„Núna fara fram átök milli mjög kalds lofts sem kemur frá Norður-Kanada inn á Atlantshafið og lægðirnar eru að myndast á skilum loftmassanna, þess kalda og hlýrri loftmassa sem eru fyrir á Atlantshafinu. En það sem gæti gerst í lok vikunnar, frá og með föstudegi, er að við lendum inni í kalda loftinu og í átakaminna veðri, en köldu. Það er svona líklegasta staðan eins og spáin var í kvöld. En þegar svona átök eru þá eru spár marga daga fram í tímann ennþá óáreiðanlegri en vanalega,“ segir hann.