Fjölmiðilinn Stundin hefur slegið met á hópfjármögnunarsíðunni Karolina Found. Stundin leitar eftir stuðningi almennings í gegnum Karolina Fund, þar sem hægt er að gerast áskrifandi og kaupa auglýsingar til styrktar stofnun miðilsins.
Söfnun Stundarinnar á Karolina Fund hófst í gærkvöldi, mánudaginn 5. janúar, kl. 23.00. Nú þegar hefur Stundin náð 32% prósentum af markmiðum sínum, eða rúmlega 1,2 milljónum króna. Er þetta besta byrjun sem nokkur söfnun hefur fengið á Karolina Fund.
Að sögn Jón Trausta Reynissonar, ritstjóra Stundarinnar, gengur fjármögnunin betur en hann vonaði. Þá hefur hópurinn sem stendur að baki fjölmiðlinum fengið mikil og góð viðbrögð frá almenningi.
Á síðunni Karolina Fund má sjá áætlun hópsins. Safnist fimm milljónir er gert ráð fyrir gerð fjárhagsáætlunar, öflun húsnæðis, vefhönnun, vefforritun, fullvinnslu og birtingu ritstjórnarstefnu, fullvinnslu og birtingu samþykktar útgáfufélagsins, gerð auglýsingasamninga, ráðningu blaðamanna, útlitshönnun blaðs, skrifum á efni og að lokum útgáfu blaðs.
Meðal annars er hægt að gefa 18 evrur til söfnunarinnar, eða rúmlega 2.781 íslenskar krónur, og fær sá sem gefur upphæðina þriggja mánaða áskrift að Stundinni á vef og prenti, ásamt tilboðskorti Stundarinnar með tilheyrandi fríðindum. Þá er einnig hægt að gefa meira og fá þá auglýsingu í net- eða prentútgáfu blaðsins.
Jón Trausti segir að þótt markmiðið náist, söfnun fimm milljóna íslenskra króna, ljúki söfnuninni ekki þá. Stærð verkefnisins og fjöldi blaðamanna veltur á því hversu margir koma að verkefninu og því er ákjósanlegast að sem flestir taki þátt í því. Stundin opnar vef- og prentútgáfu í febrúar.
Stofnendur Stundarinnar eru Elín G. Ragnarsdóttir, Heiða B. Heiðars, Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, Jón Ingi Stefánsson og Jón Trausti Reynisson. Ingibjörg Dögg og Jón Trausti munu ritstýra Stundinni, en Jón Trausti verður jafnframt framkvæmdastjóri.