Allir hjartaþræðingalæknar á Landspítalanum hafa sagt upp störfum nema yfirlæknir hjartaþræðinga. Þetta staðfesti Hlíf Steingrímsdóttir, framkvæmdastjóri lyflækningsviðs Landspítalans.
Fyrst sagði upp hjartalæknir sem er sérhæfður í svonefndum hjartabrennsluaðgerðum. Fjórir hjartalæknar til viðbótar, sem eru sérhæfðir í hjartaþræðingum, hafa einnig sagt upp störfum. Uppsagnirnar tveggja bárust fyrir áramótin og tveggja eftir áramót. Uppsagnafrestur þeirra er þrír mánuðir.
„Þetta er mjög alvarlegt ástand,“ sagði Hlíf. „Ef verður samið fljótlega þá vona ég að þessir læknar muni draga uppsagnir sínar til baka.“
Hún sagði að að ef það dragist að semja við lækna þá fari þeir sem hafa sagt upp störfum að kanna möguleika og líta í kringum sig eftir nýjum störfum. „Það er mjög mikilvægt að fá þessa lækna til að draga uppsagnir sínar til baka, það gefur augaleið,“ sagði Hlíf.
Nánar verður fjallað um málið í Morgunblaðinu á morgun.