„Það náðist ásættanleg lending“

Gunnar Björnsson, formaður samninganefndar ríkisins og Helgi Kjart­an Sigurðsson, formaður …
Gunnar Björnsson, formaður samninganefndar ríkisins og Helgi Kjart­an Sigurðsson, formaður Skurðlækna­fé­lags Íslands, takast í hendur eftir undirritun samningsins í nótt. Kristinn Ingvarsson

„Ég reikna með því að samningurinn verði samþykktur,“ segir Helgi Kjart­an Sigurðsson, formaður Skurðlækna­fé­lags Íslands, um nýj­an kjara­samn­ing skurðlækna sem und­ir­ritaður var rétt eftir miðnætti í nótt. 

Samn­inga­nefnd­ir skurðlækna og rík­is­ins komust að sam­komu­lagi og var fyrirhuguðum verkfallsaðgerðum skurðlækna því af­lýst. Gert er ráð fyrir að samningurinn verði kynntur félagsmönnum í næstu viku. 

Aðspurður segist Helgi sáttur við samninginn, þótt lítið sé hægt að segja að svo stöddu. „Það náðist ásættanleg lending í þessu,“ segir hann, og bætir við að full samstaða hafi verið hjá samninganefnd skurðlækna um samninginn. Þá sé samningurinn á svipuðum nótum og sá sem gerður var við Læknafélag Íslands í gær.

Eftir marga mánuði af samningaviðræðum og rúmlega þrjátíu samningafundi neitar Helgi því ekki að honum sé létt að kjaraviðræðunum sé lokið. „Mesti léttirinn er fólginn í því að það sé búið að aflýsa verkfalli, en auðvitað er líka léttir að hafa samið,“ segir hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka