Þingmenn Pírata, Helgi Hrafn Gunnarsson, Jón Þór Ólafsson og Birgitta Jónsdóttir vilja afnema bann við guðlasti. Þau hyggjast leggja frumvarpið fram þegar þing kemur aftur saman.
Um er að ræða breytingu 125 grein almennra hegningarlaga en þingmennirnir vilja fella greinina út. Í henni segir: Hver, sem opinberlega dregur dár að eða smánar trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúarbragðafélags, sem er hér á landi, skal sæta sektum eða [fangelsi allt að 3 mánuðum]. Mál skal ekki höfða, nema að fyrirlagi saksóknara
Í greinargerð frumvarpsins segir að tjáningarfrelsið sé einn af mikilvægustu hornsteinum lýðræðis og felsis. „Það er grundvallaratriði í frjálsu samfélagið að almenningur geti tjáð sig án ótta við refsingar af nokkru tagi, hvort heldur sem er af völdum yfirvalda eða annarra.“
Þá segir einnig: „Fólk hefur ólíka sýn á lífið og því er viðbúið að tjáning sem einn telur eðlilega telji annar móðgandi. Sem betur fer eru upplifanir fólks af lífinu og tilverunni afskaplega ólíkar. Því er með öllu óraunhæft að ætla mannlegum hugsunum, tilfinningum og skoðunum að rúmast innan ramma kurteisinnar.“
Fjallað er um fjöldamorðin í París miðvikudaginn 7. Janúar. „Tilefni árásarinnar var sú að útgáfan hafði meðal annars birt móðgandi myndir af trúarlegum spámanni árásaraðilanna. Slíkar árásir á fólk vegna tjáningar eru því miður ekki nýlunda. Það er hins vegar ábyrgðarhluti lýðræðissamfélaga að svara slíkum árásum með þeim skýru skilaboðum um að tjáningarfrelsið muni aldrei lúta fyrir manndrápum, ofbeldi eða hótunum. Meðal annars af þeirri ástæðu leggja flutningsmenn frumvarpsins til að Ísland leggi sitt af mörkum við að koma þeim skilaboðum á framfæri með því að gera frumvarp þetta að lögum.“
Frumvarpið hefur verið sent til skjalavinnslu á Alþingi og gæti tekið breytingum áður en því verður dreift til þingmanna.