267 fá listamannalaun

Alls hafa 267 einstaklingar og hópar fengið úthlutuð listamannalaun fyrir árið 2015. Samkvæmt fjárlögum þessa árs eru mánaðarlaunin 321.795 kr., en um verktakagreiðslur er að ræða. Alls bárust 769 umsóknir frá einstaklingum og hópum.

Til úthlutunar voru 1.601 mánaðarlaun en sótt var um 10.014 mánuði, að því er segir í tilkynningu á vef Rannís.

Á fjárlögum þessa árs nema framlög til listamannalauna 525 milljónum króna.

Meðal þeirra sem fá listamannalaun í ár eru tónlistarmennirnir Gunnar Þórðarson, Víkingur Heiðar Ólafsson og Bryndís Halla Gylfadóttir, en þau fá öll laun í 12 mánuði. Leikhópurinn Sokkabandið fær laun í 20 mánuði og rithöfundarnir Auður Ólafsdóttir og Eiríkur Ómar Guðmundsson fá laun í 24 mánuði. Alls fá 20 rithöfundar laun í 12 mánuði, m.a. Ófeigur SigurðssonAuður Jónsdóttir, Gyrðir Elíasson, Jón Kalman Stefánsson og Þórunn Erlu Valdimarsdóttir. 

Myndlistarmaðurinn Erla Þórarinsdóttir fær laun í 24 mánuði og Anna Fríða Jónsdóttir, Gabríela Kristín Friðriksdóttir, Magnús Logi Kristinsson, Rúrí (Þuríður Rúrí Fannberg) og Þóra Sigurðardóttir fá laun í 12 mánuði hver.

Þá vekur athygli að rithöfundurinn Þorgrímur Þráinsson hefur fengið úthlutuð laun í þrjá mánuði, en hann hefur alls fengið neitun í 25 skipti.

Nánar hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert