Dagur biður fatlaða afsökunar

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

„Það hefur valdið miklum vonbrigðum hvað breytt fyrirkomulag og tölvukerfi hefur farið illa af stað eins og fjölmörg dæmi sanna,“ skrifar Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, í vikulegt fréttabréf sitt, um breytingar á ferðaþjónustu fatlaðra í borginni.

„Ferðaþjónusta fatlaðra var endurskipulögð á síðasta ári með það að markmiði að auka sveigjanleika og stytta þann tíma sem líður frá því að bíll er pantaður og þar til hann kemur. Áður þurfti að panta bíl með sólarhringsfyrirvara en nú eru það tvær klukkustundir. Markmiðið var að auka ferðafrelsi fatlaðs fólks.

Strætó hefur annast þjónustuna árum saman og var ákveðið að hafa þann háttinn áfram á. Það hefur valdið miklum vonbrigðum hvað breytt fyrirkomulag og tölvukerfi hefur farið illa af stað eins og fjölmörg dæmi sanna. Strætó baðst í gær velvirðingar og bað notendur þjónustunnar afsökunar á þeim óþægindum sem þeir hefðu orðið fyrir - og það geri ég sömuleiðis. Velferðarsvið og velferðarráð sem hefur eftirlit með þjónustunni fyrir hönd borgarinnar hafa látið það til sín taka og munu fylgja því fast eftir að úr verði bætt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert