Lög gegn guðlasti hættuleg

Lok, lok og læs. Þessi skilaboð blasa við þeim sem …
Lok, lok og læs. Þessi skilaboð blasa við þeim sem reyna að fletta upp 2. tölublaði Spegilsins frá 1983 á timarit.is Skjáskot af timarit.is

Upplýstur heimur sem veitir trúarbrögðum undanþágu frá lögum og margskonar forréttindi elur af sér ofstækisfulla sérhyggjumenn segir Úlfar Þormóðsson, rithöfundur. Hann var dæmdur fyrir guðlast árið 1983 þegar hann var ritstjóri skoptímaritsins Spegilsins. Hann telur lög gegn guðlasti hættuleg. 

Það var 2. tölublað skoptímaritsins Spegilsins sem fór svo fyrir brjóstið á einhverjum að allt upplag blaðsins var gert upptækt af lögreglu og Úlfar dæmdur í Hæstarétti til sektargreiðslu vegna guðlasts. Enn þann dag í dag er lokað fyrir aðgang að blaðinu á vefnum timarit.is. Í viðtali við Morgunblaðið árið 2013 sagðist Úlfar aldrei hafa fengið að vita hver kærði guðlastið en það hafi trúlega verið Biskupsstofa eða menntamálaráðherra.

Þingflokkur Pírata hefur nú lagt fram frumvarp um að afnema ákvæði íslenskra laga um guðlast í tilefni af hryðjuverkaárásinni á skrifstofur franska skoptímaritsins Charlie Hebdo í París á miðvikudag. Ákvæðin sem notuð voru til að sakfella Úlfar fyrir rúmum þrjátíu árum. Árásin í París var framin af íslömskum öfgamönnum sem eru sagðir hafa ætla að hefna fyrir skopmyndir blaðsins af spámanninum. Tólf manns voru skotnir til bana í árásinni.

„Í fyrstunni var mér ekki öðruvísi farið en öðrum sem skynja mikilvægi málfrelsisins; ég var gripinn sorgarangist. Samt sem áður hafði ég gert mér grein fyrir því að til einhvers ámóta mundi draga fyrr eða síðar. Upplýstur heimur, sem veitir trúarbrögðum undanþágu frá almennum lögum og margskonar forréttindi, elur af sér ofstækisfulla sérhyggjumenn sem eiga sér aðeins einn sannleika og þola hvorki háð né spott um hann hvað þá upplýsta umræðu,“ segir Úlfar um hvernig hann hafi upplifað atburðina í París.

Úlfar tekur hins vegar fram að þó að guðstrúin valdi miklu í þessu máli þá spili áreiðanlega margt annað inn í eins og fáviska, fátækt, mismunun og hræðsla.

Bíður afsökunarbeiðni kirkjunnar

Spurður að því hvað honum finnist um það að lögin sem notuð voru til að sakfella hann fyrir guðlast fyrir 32 árum séu enn í gildi segir Úlfar að það sé að sjálfsögðu til marks um ofurvald trúarinnar í samvafningi við veraldarvaldið.

„Það hefði aldrei átt að setja slík lög og í nútímanum eru þau kjánaleg auk þess að vera hættuleg. Það kæmi mér ekki á óvart að menn bæru meiri virðingu fyrir trúarskoðunum hvers annars ef þær væru ekki sérverndaðar. Til þess að átta sig betur á þessu gætu menn sett stjórnmálaskoðanir inn í verndarlögin í stað guðstrúar. Og hvar stæðum við þá? Hvar væru þá teiknararnir okkar, háðfuglarnir, Skaupið, Spaugstofan, Silvía Nótt og Davíð Oddson?“ segir hann.

Þegar Morgunblaðið fjallaði um Spegilsmálið árið 2013 þegar þrjátíu ár voru liðin frá því sagði Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir, landsbókavörður, að eintakið af 2. tölublaði Spegilsins frá 1983 væri geymt í sérstakri geymslu sem örfáir hefðu aðgang að. Aðgangur að því væri lokaður, jafnvel fyrir fræðimenn. Skoðað yrði gaumgæfilega að birta blaðið ef aðilar málsins kæmu sér saman um það. Hún taldi þó að ritstjóri blaðsins, þ.e.a.s. Úlfar, ætti að hafa frumkvæði að því.

„Í raun hef ég verið að bíða eftir því að kirkjan tæki á sig rögg og bæði mig afsökunar á málaferlunum og óskaði eftir því að fá bannaða Spegilinn birtan sem fylgiblað Kirkjuritsins. Og bíð enn. Hef ekki heyrt þessa skoðun landsbókavarðar fyrr en nú. Vonandi hefur hún samband við biskupinn,“ segir Úlfar spurður að því hvort hann hafi óskað eftir því að blaðið verði birt.

Í samtali við mbl.is segir Ingibjörg landsbókavörður að málið hafi tafist en það sé nú í skoðun hjá Landsbókasafni Íslands.

Úlfar Þormóðsson, rithöfundur og fv. ritsjóri skoptímaritsins Spegilsins.
Úlfar Þormóðsson, rithöfundur og fv. ritsjóri skoptímaritsins Spegilsins. Árni Sæberg
Mynd sem birtist í 2. tbl. Spegilsins árið 1983 þar …
Mynd sem birtist í 2. tbl. Spegilsins árið 1983 þar sem meðal annars var gert grín að fermingum. Úr 2. tbl Spegilsins árið 1983
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka