Robert C. Barber, nýr sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, tók formlega við embætti sendiherra fyrir helgi þegar hann sór eið frammi fyrir Joe Biden, varaforseta Bandaríkjanna. Samkvæmt upplýsingum frá bandaríska sendiráðinu er Barber væntanlegur til Íslands í síðari hluta janúar.
Bandarískur sendiherra hefur ekki verið hér á landi frá því að Luis E. Arreaga lét af embætti í nóvember 2013. Öldungadeild Bandaríkjaþings tók sér langan tíma til þess að samþykkja Barber og fleiri nýja sendiherra sem tilnefndir höfðu verið af Barack Obama Bandaríkjaforseta. Obama skipaði Barber í embættið í október 2013. Öldungadeildin samþykkti loks skipun hans fyrir jól.
Barber er fæddur árið 1950 og ólst upp í borginni Charleston í Suður-Karólínu í Bandaríkjunum. Hann lauk doktorsnámi í lögfræði frá Boston-háskóla árið 1977 og meistaragráðu í skipulagsfræðum frá Harvard-háskóla sama ár. Að námi loknu starfaði hann sem aðstoðarsaksóknari í New York-sýslu frá 1977-1981. Þaðan gekk hann til liðs við lögfræðistofuna Looney & Grossman LLP árið 1981 þar sem hann hefur starfað allar götur síðan. Hann varð meðeigandi að stofunni 1985 og framkvæmdastjóri hennar 2001-2003.
Fréttir mbl.is:
Samþykkti Barber sem sendiherra
Sendiherra bíður enn staðfestingar
Obama tilnefnir nýjan sendiherra