Rafræn atkvæðagreiðsla félagsmanna í Læknafélagi Íslands um nýjan kjarasamning félagsins við ríkið hefst næstkomandi mánudag. Efni kjarasamningsins var kynnt í gær á einum fjölmennasta fundi sem haldinn hefur verið í félaginu.
Í samningnum eru meiri starfsaldurshækkanir en í fyrri samningum og meira umbunað fyrir sérþekkingu.
„Mér fannst ég skynja það að mönnum þætti þetta frekar ásættanlegt en hitt. Allavega er miklu meiri áhugi fyrir málinu en oft áður. Læknar telja að meira hafi verið í húfi, ekki bara fyrir þá heldur líka það að reyna að hindra að menn hætti og eins að menn verði tilbúnir að koma aftur heim frá útlöndum,“ segir Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands. „Vonandi er að þeim markmiðum sé að einhverju leyti mætt en félagsmenn verða að kveða upp sinn dóm.“