Verðhækkanir í Stúdentakjallaranum

Stúdentakjallarinn við Háskólatorg.
Stúdentakjallarinn við Háskólatorg. Ómar Óskarsson

Verð á flestum réttum í Stúdentakjallaranum hækkaði talsvert um áramótin og nemur hækkunin allt að 37,5%. Flestir réttir hækka þó um 5% til 18%. Þetta er umtalsverð hækkun umfram almennar verðlagshækkanir, en umsjónarmenn Stúdentakjallarans segja að vörur hafi áður verið of lágt verðlagðar til að starfsemin kæmi út á sléttu. 

Rebekka Sigurðardóttir hjá Stúdentakjallaranum segir í samtali við mbl.is að reglulega þurfi að gera breytingar á matseðlinum, enda séu viðskiptavinir að jafnaði mikið í skólanum og komi reglulega í Stúdentakjallarann.

Þarf að koma út fyrir ofan núllið

Síðasta sumar hafi rekstaraðilar staðarins aftur á móti séð að það þyrfti að fara í umtalsverðar verðhækkanir til að ákveðnir réttir kæmu út á núlli. Stúdentakjallarinn er rekinn af Félagsstofnun stúdenta og Rebekka segir að aðeins sé stefnt að því að koma út réttum megin við núllið. „Við verðlögðum eins lágt og við gátum, en í sumar var ákveðið að nauðsynlegt væri að hækka ákveðnar vörur,“ segir hún.

Allt að 37,5% hækkun

Meðal þess sem hækkaði umtalsvert voru samlokur. Á barnamatseðli nam sú hækkun á samloku með osti og frönskum 37,5% og fór úr 320 krónum í 440 krónur. Á almennum seðli var hækkunin á samloku með osti 26,5% og fór úr 490 krónum í 620 krónur. Hamborgari með osti hækkaði um 17,6% og fór úr 850 krónum í 1.000 krónur og aðrir stakir hamborgarar hækkuð álíka mikið.

Nachos upp um 22%

Hækkun á brauðkörfum og súrbrauði var 4%-5%, en lítill skammtur af nachos hækkaði um rúmlega 22%. Þá fór spínat- og kjúklingasalat upp um 12,6%, eða úr 1.190 krónum í 1.340 krónur. „Verðlagið var allt of lágt, þetta snýst um það,“ segir Rebekka.

Félagsstofnunin rekur einnig Hámu, en Rebekka staðfestir að þar hafi einnig verið verðhækkanir á mörgum liðum. Ekki liggur þó fyrir hver sú hækkun er. Þó er ljóst að matarkostnaður háskólanema við Háskóla Íslands mun að öllum líkindum hækka talsvert á þessu ári eftir allar breytingarnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert