Flókið að vinna úr biðlistunum

Unnið er að því að endurraða biðlistum á Landspítalanum.
Unnið er að því að endurraða biðlistum á Landspítalanum. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Full vinna stendur nú yfir á Landspítalanum við endurröðun biðlista, en þeir lengdust gífurlega vegna verk­fallsaðgerða lækna og skurðlækna sem stóðu yfir frá 27. októ­ber til 7. janúar. Sumum tímum er hægt að koma fyrir á göngudeildum, en erfiðara reynist að koma öðrum tímum fyrir.

„Þetta er svo viðamikil og flókin starfsemi og margar sérgreinar að þetta er frekar flókið. Það þarf að taka mismunandi á málunum eftir eðli hverrar og einnar sérgreinar sem getur tekið tíma en sú vinna er í gangi,“ segir Hlíf Stein­gríms­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri lyflækn­inga­sviðs Landspítalans um stöðu mála.

„Sums staðar er hægt að koma þessu fyrir á göngudeildum og bæta við tímum þar, en annars staðar er það erfiðara þar sem hver tími er þaulsetinn og flóknara er að koma þeim sem bíða inn.“

Starfsemi raskast mikið

Að sögn Hlífar hefur starfsemi raskast meira á sumum deildum en öðrum. „Þetta er mjög mismunandi eftir starfsemi. Eins og til dæmis með hjartaþræðingarnar þar sem bókað var í alla tíma, þar er flóknara að raða á biðlistann. Við erum með ákveðinn forgangslista yfir þá sjúklinga sem þurfa að vera í forgangi, og það þarf að endurraða öllum tímum sem þegar hefur verið bókað í.“

Hún segir þó að á sum­um deild­um hafi starf­sem­in raskast minna, t.d. á krabba­meins­deild­inni, þar sem sjúk­ling­ar fengu sína skipu­lögðu meðferð. Hún seg­ir að það muni hins veg­ar taka tíma að vinda ofan af áhrif­um verk­falls­ins.

„Það eru allir að fara yfir starfsemina hjá sér, biðlista og mönnunarmál þessa dagana. Þessi vika er svo tekin í það að kynna samninginn og það tekur allt sinn tíma. Það er svolítið snemmt að segja til um hvaða áhrif samningurinn hefur en við vonum auðvitað það besta.“

Vonar að uppsagnir verði dregnar til baka

Hlíf segist vonast til þess að þeir læknar sem hafa sagt upp störfum á spítalanum frá því verkfallsaðgerðir hófust, muni draga uppsagnir sínar til baka. „Ég vona að samningarnir verði samþykktir og þeir læknar sem hafa sagt upp meti það svo að þeir muni draga uppsagnirnar til baka og komi aftur. Ég vona það svo sannarlega en það ætti vonandi að skýrast á næstu vikum.“

Loks segir hún það gífurlega ánægjulegt að samningar hafi náðst og verkfalli hafi verið aflétt. „Það er mjög mikill léttir.“

Alls var 586 aðgerðum á Land­spít­al­an­um frestað vegna verk­fallsaðgerðanna. Jafn­framt er áætlað að 786 aðgerðir hafi fallið niður. Auk niður­felldra og frestaðra aðgerða voru 108 niður­fell­ing­ar á inn­grip­um á hjartaþræðinga­stofu. Þar af voru 67 hjartaþræðing­ar, átján gangráðsaðgerðir, fimmtán brennsluaðgerðir, sex Amplatzer-aðgerðir og tvær víkk­an­ir. Þá urðu 3.117 niður­fell­ing­ar á kom­um á göngu­deild­ir.

Hlíf Steingrímsdóttir, framkvæmdarstjóri lyflækningasviðs.
Hlíf Steingrímsdóttir, framkvæmdarstjóri lyflækningasviðs. Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka