Hafa ekki dregið uppsagnir til baka

Læknar að störfum.
Læknar að störfum. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Þeir læknar sem sögðu upp störfum á Landspítalanum áður en samningar náðust á milli Læknafélags Íslands og ríkisins hafa ekki dregið uppsagnir sínar til baka þrátt fyrir að samningur hafi náðst og verið kynntur félagsmönnum fyrir helgi.

Samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum sögðu margir þessara lækna upp með þann fyrirvara á að uppsögnin yrði dregin til baka ef samningar næðust og kjör yrðu ásættanleg. Margir þeirra skoði nú hvað felist í samningnum, áður en þeir taki ákvörðun um framhaldið.

Skoða kjörin áður en þeir taka ákvörðun

Meðal lækna sem sagt hafa upp störfum á spítalanum eru allir hjartaþræðingalæknar, fyrir utan yfirlækni hjartaþræðinga. Að sögn Gests Þorgeirssonar, yfirlæknis hjartadeildar, hafa þessir læknar ekki haft samband til að draga uppsagnirnar til baka ennþá.

„Ég býst við því að þeir vilji sjá hvort samningurinn verði samþykktur, hvað felist í honum og hvað það þýði áður en þeir taka ákvörðun,“ segir Gestur. „Það er verið að breyta vaktavinnunni svolítið og bakvöktunum svo það vilja líklega flestir sjá hvernig það mun koma út fyrir þá.“

Mjög alvarlegt ástand

Meðal lækna á deildinni sem sagt hafa upp er hjartalæknir sem er sérhæfður í svonefndum hjartabrennsluaðgerðum. Þá hafa fjórir hjartalæknar til viðbótar, sem eru sérhæfðir í hjartaþræðingum, einnig sagt upp. Uppsagnarfresturinn er þrír mánuðir, og eru því allir læknarnir enn að störfum við Landspítalann.

Að sögn Gests er mjög alvarlegt ef uppsagnirnar taka gildi, en læknirinn sem gerir brennsluaðgerðirnar er til að mynda sá eini á landinu sem gerir sérhæfðustu aðgerðirnar. Mönnun á hjartadeild hefur verið á mörkunum síðustu misseri og hefur álag því verið mikið á sérfræðinga deildarinnar. Læknadeilan hefur svo einnig haft áhrif og biðlistar eftir aðgerðum lengst verulega.

Hlíf Stein­gríms­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri lyflækn­ingsviðs Land­spít­al­ans, sagði í samtali við mbl.is í síðustu viku að ástandið væri mjög alvarlegt. „Það er mjög mik­il­vægt að fá þessa lækna til að draga upp­sagn­ir sín­ar til baka, það gef­ur auga­leið.“

Atkvæðagreiðsla um samninginn hefst í dag og lýkur aðfaranótt laugardags. Haldinn verður annar kynningarfundur í Reykjavík fyrir þá lækna sem ekki komust á fundinn á föstudag, og svo verða haldnir kynningarfundir á tveimur stöðum á landsbyggðinni. Læknar fengu ekki að sjá kjarasamninginn á kynningarfundinum á föstudag, en farið var yfir aðalatriði og hann kynntur í stórum dráttum.

Frétt mbl.is: „Þetta er mjög alvarlegt ástand“

Gestur Þorgeirsson, yfirlæknir hjartadeildar Landspítalans.
Gestur Þorgeirsson, yfirlæknir hjartadeildar Landspítalans. Þorkell Þorkelsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert