Fatlaðir hafa upplifað óöryggi og hræðslu

mbl.is/Eyþór

„Upp hafa komið alvarleg atvik þar sem fatlað fólk hefur upplifað óöryggi, hræðslu og mikla röskun á daglegu lífi sínu vegna ófullnægjandi þjónustu Strætó og er það óásættanlegt,“ segir í yfirlýsingu sem réttindagæslumenn fatlaðs fólks í Reykjavík og á Seltjarnarnesi hafa sent frá sér.

Fram kemur að réttindagæslumennirnir hafi frá því breytingar urðu á ferðaþjónustu fatlaðs fólks í Reykjavík og á Seltjarnarnesi sinnt einstaklingsmálum sem upp hafa komið vegna ófullnægjandi þjónustu eftir að Strætó tók við framkvæmd þjónustunnar.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, hefur beðist afsökunar á því hversu miklum vonbrigðum breytt fyrirkomulag og tölvukerfi hafi valdið og farið illa af stað.

„Nú er ljóst að ekki aðeins er um að ræða nýtt tölvukerfi sem ekki virkar sem skyldi heldur samspil fleiri þátta. Upp hafa komið alvarleg atvik þar sem fatlað fólk hefur upplifað óöryggi, hræðslu og mikla röskun á daglegu lífi sínu vegna ófullnægjandi þjónustu Strætó og er það óásættanlegt,“ segir í yfirlýsingu réttindagæslumannanna.

Tryggja verði öryggi og áreiðanleika þjónustunnar

Fram kemur að réttindagæslumenn leggja ríka áherslu á við alla þá aðila sem málið varðar að tryggja öryggi og áreiðanleika þjónustunnar tafarlaust þar sem um viðkvæma þjónustu sé að ræða og fatlað fólk, eins og aðrir, hafi skuldbindingar í sínu daglega lífi sem ferðaþjónustan eigi að aðstoða það við að rækja.

Þá segir að réttindagæslumenn í Reykjavík og á Seltjarnarnesi hafi lagt til við framkvæmdastjóra velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Strætó að notendur fái kynningu á breytingunum á ferðaþjónustunni. Þá sé þess gætt að kynningar séu á auðlesnu máli, þannig að allt fatlað fólk fái upplýsingar á þann hátt sem hentar hverjum notanda.

Fólk hvatt til að koma ábendingum á framfæri

„Velferðarsvið Reykjavíkurborgar og Strætó hafa sagt að allt kapp verði lagt á að koma þjónustunni í viðunandi horf án tafar.

Fatlað fólk, aðstandendur, starfsfólk í þjónustu við fatlað fólk og aðrir sem málið snertir eru hvött til að koma ábendingum um það sem betur má fara á abending@straeto.is
Nauðsynlegt er að tryggja að upplýsingar um notendur og ferðir þeirra séu áreiðanlegar og allir leggi sig fram um að tryggja öryggi notenda ferðaþjónustunnar.

Fatlað fólk og aðrir sem málið varðar geta einnig haft samband við réttindagæslumenn fatlaðs fólks til að koma fram ábendingum og óskum um aðstoð við úrlausn persónulegra mála. Upplýsingar um réttindagæslumenn má finna á http://www.velferdarraduneyti.is/rettindagaesla/nr/33768,“ segir í yfirlýsingunni sem þau Kristjana Sigmundsdóttir, Magnús Þorgrímsson og Auður Finnbogadóttir senda frá sér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert