Sá tími nálgast, með sömu þróun í sölu á raforku og virkjun hennar, að raforkan í landinu verði uppseld. Það myndi hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir heimili og atvinnurekstur í landinu.
Hæg en stöðug aukning hefur verið í heildarraforkunotkun í landinu. Lítið bætist við framboðið því ekki er mikið virkjað. Björgvin Skúli Sigurðsson, framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunar hjá Landsvirkjun, segir í Morgunblaðinu í dag, að gagnaver og annar iðnaður um allt land hafi verið að bæta við sig og almenn umsvif, svo sem í ferðaþjónustu, kalli á aukna raforkunotkun. Landsvirkjun hafi haft ákveðið svigrúm en nú sé að koma að þeim tímapunkti að raforkan verði uppseld.
Með samningum við kísilver hefur Landsvirkjun lokið við að selja þá orku sem hún átti fyrirliggjandi. Björgvin segir ekki hægt að fullyrða hvenær virkjuð orka í landinu verði uppseld en farið sé að styttast í það.