Bækurnar verði opnaðar upp á gátt

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. mbl.is/Ómar

„Talan kemur í sjálfu sér ekki á óvart miðað við það sem heyrst hafði um kröfugerð lækna. En það sem skiptir kannski mestu máli í þessu sambandi er að það hefur ekki komið nægjanlega skýrt fram í umræðunni að hvaða marki læknar höfðu dregist aftur úr. Ég tel að það sé mjög mikilvægt, miðað við þá ólgu sem þessi samningur hefur valdið á vinnumarkaði, að nú verði bækurnar einfaldlega opnaðar.“

Þetta segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í samtali við mbl.is vegna forsíðufréttar Morgunblaðsins í dag þar sem greint er frá því að launakostnaður ríkisins vegna lækna hækki um tæp 30% með kjarasamningnum sem gerður var við Læknafélag Íslands í síðustu viku. Kostnaðurinn gæti jafnvel orðið umtalsvert meiri þegar upp verði staðið eftir því hvaða hagræðing náist fram með breytingum á vinnufyrirkomulagi lækna.

„Það þarf að sýna mjög ítarlega hvað felist í þessum kjarasamningi, að hversu miklu leyti þessar launahækkanir má skýra einfaldlega vegna þess að læknar hafi dregist aftur úr öðrum hópum í samfélaginu og það sé því um að ræða einhvers konar réttmæta leiðréttingu ef svo má að orði komast,“ segir hann ennfremur. Hafa verði í huga í því samhengi að lægri tekjuskalinn hafi lækkað mun meira í prósentum á undanförnum árum en sá hærri vegna sérstakra hækkana lægstu launa og þess vegna sé ljóst að læknar ættu af þeim sökum að hafa hækkað minna en sem nemi launavísitölu á sama tímabili vegna þeirra aðgerða.

„Ég held að þetta sé afar mikilvægt ef það á að takast að slá að einhverju leyti á þessa ólgu og þá verðbólgu sem komin er í kröfur verkalýðsfélaganna að þessi samningur verði útskýrður mjög gaumgæfilega. Á hvaða forsendum hann er byggður, hvaða hagræðingu hann kunni að skila í rekstri Landspítalans og annarra heilbrigðisstofnana á móti og síðast en ekki síst það sem var aldrei rætt í þessari deilu: Annars vegar hver sé þessi leiðréttingarþörf sem læknar töldu sig eiga inni gagnvart öðrum kjörum hér á landi og hins vegar hvernig þessi alþjóðlega samkeppnisstaða lækna lítur út fyrir og eftir samninginn. Það er engin leið að skapa frið um þennan samning nema það sé opnað vel upp hvernig menn komust að þessari niðurstöðu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka