„Ég held að þessi deila hafi að sumu leyti mótað alveg nýjan ramma um það hvað sé leyfilegt eða heimilt að gera í kjaradeilum. Þá sérstaklega á opinbera markaðinum. Skipulag deilunnar og framganga hennar hafi þýtt ansi mörg mörk sem stjórnvöld í sjálfu sér brugðust ekki við með því að andmæla. En sé þetta rétt þýðir það að lækna fá að meðaltali um 400 þúsund króna hækkun.“
Þetta segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, í samtali við mbl.is vegna forsíðufréttar Morgunblaðsins í dag þar sem greint er frá því að launakostnaður ríkisins vegna lækna hækki um tæp 30% með kjarasamningnum sem gerður var við Læknafélag Íslands í síðustu viku. Ennfremur að kostnaðurinn gæti jafnvel orðið umtalsvert meiri þegar upp verði staðið eftir því hvernig til takist að ná fram hagræðingu með breytingum á vinnufyrirkomulagi lækna. Vísar hann þar til þess að tekist hafi að leggja áherslu á stöðu heilbrigðiskerfisins og ótta um framtíð þess í tengslum við kjaraviðræður lækna.
Gylfi gagnrýnir að ekki liggi upplýsingar um það hver launakjör lækna séu. „Það er upplýst um laun hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða, geislafræðinga og allra annarra stétta í heilbrigðiskerfin. En ekki lækna. Síðan verður til einhver stemning í kringum það að læknar njóti einhverrar sérstöðu og við erum að tala hérna um hóp sem er að meðaltali með 1.200 þúsund og hækkar um 400 þúsund. Hækkun þeirra er snöggtum hærri heldur en meðaltekjur sjúkraliða. Og hvað halda menn að gerist núna?“ Þá hafi að sama skapi verið illa upplýst með hvaða hætti læknar hafi dregist aftur úr öðrum stéttum eins og þeir hafi haldið fram.
Viljayfirlýsing stjórnvalda og stéttarfélaga lækna á dögunum, sem unnin var samhliða kjaraviðræðum lækna, er Gylfa ennfremur umhugsunarefni í þessum efnum þar sem félögin séu ekki aðeins stéttarfélög heldur einnig atvinnurekendafélög í ljósi þess að margir læknar starfi sjálfstætt. Samkvæmt viljayfirlýsingunni lofi stjórnvöld fjölbreyttari rekstrarformi í heilbrigðiskerfinu og þar með sjálfstætt starfandi læknum auknum viðskiptum. „Þetta hef ég ekki séð áður. Að menn beiti sér í verkfalli fyrir því að fá aukin viðskipti í einhverjum mæli.“ Sú spurning vakni hvort þarna sé eitthvað samkeppnisyfirvöld þurfi að skoða.