Pegida komin til Íslands

Af Facebook-síðunni Pegida Iceland.
Af Facebook-síðunni Pegida Iceland.

Svo virðist sem þýska öfgahreyfingin Pegida, sem beinist gegn meintum íslömskum áhrifum í Evrópu, hafi náð til Íslands. Facebooksíða fyrir Pegida á Íslandi var stofnuð á sunnudag og hafa tæplega tvö hundruð manns lækað hana nú þegar.

Pegida-samtökin urðu til seint á síðasta ári í Þýskalandi en þau hafa staðið fyrir mótmælum gegn því sem þau telja íslömsk áhrif í Evrópu. Hreyfingin nefnist „Evrópskir föðurlandsvinir gegn íslamsvæðingu Vesturlanda“ eða PEGIDA. Hún var stofnuð í október í Dresden, höfuðborg Saxlands.

Nú virðast samtökin hafa fengið hljómgrunn á Íslandi ef miðað er við facebooksíðuna. Þar kallar hópurinn sig „Pegida: Samtök fólks gegn íslamvæðingu Evrópu“.

„Við munum birta hér fréttatengt efni frá viðurkenndum erlendum fréttaveitum sem tengist innreið og uppgang islam [sic] í Evrópu. Fréttatengt efni sem fjölmiðlar á Íslandi birta ekki bæði til þöggunar og vegna pólitísks rétttrúnaðar,“ segir á síðunni.

Í stefnuskrá Pegida í Þýskalandi, sem birt var í desember, segir að um sé að ræða grasrótarhreyfingu, sem hafði það markmið að vernda kristileg gildi. Hvatt er til umburðarlyndis gagnvart múslimum sem hafi „aðlagast“ um leið og lýst er yfir andstöðu við „kvenhatur og ofbeldi í hugmyndafræði“ íslamista. Þar er spjótum beint gegn „lygnum fjölmiðlum“, „pólitískum valdastéttum“ og „fjölmenningarhyggju“.

Andstæðingar samtakanna segja að þau noti lítt dulbúinn málflutning nýnasista og gagnrýna þau fyrir að kynda undir andúð á útlendingum einmitt þegar hælisleitendur horfi vonaraugum til Þýskalands og landið sé komið í annað sæti á eftir Bandaríkjunum af þeim löndum sem fólk helst vilja flytja til.

Facebooksíðan Pegida Iceland

Fyrri frétt mbl.is: Hreyfing gegn íslam vex í Þýskalandi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka