Aðskilnaður erfiðari fyrir ríkið en kirkjuna

Agnes M. Sigurðardóttir biskup.
Agnes M. Sigurðardóttir biskup. mbl.is/Golli

Biskup Íslands segir að þeir sem kynnt hafi sér fullan aðskilnað ríkis og kirkju hér á landi telja flest að ef til fulls aðskilnaðar kæmi væri erfiðara fyrir ríkið að ganga í gegnum það ferli en kirkjuna. Einnig að það sé ekki vilji fólksins, ef marka megi niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárákvæðið um þjóðkirkjuna.

Í hugleiðingu sinni á alnetinu segir Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, að það sé vegna samningsins sem í gildi er og nefndur kirkjujarðasamkomulagið að erfiðara sé fyrir ríkið að ganga í gegnum fullan aðskilnað ríkis og kirkju en kirkjuna sjálfa. Ekki skýrir biskup það hins vegar frekar. Þá hafi farið fram aðskilnaður ríkis og kirkju árið 1997 að því leyti að kirkjan sé sjálfstæð um öll sín innri mál. „Því er stundum líkt við skilnað af borði og sæng, sem er undanfari lögskilnaðar.“

Agnes minnist einnig á fjármál kirkjunnar. Hún segir að Þjóðkirkjan sé stærsti félagsskapur landsins og telji um 250 þúsund félaga. „Það er því ekki verið að tala um einhvern lokaðan fámennan klúbb þegar Þjóðkirkjuna ber á góma. Langflestir félagsmenn eru leikmenn og eru þúsundir þeirra í beinni þjónustu í sínum sóknum, flestir án þess að þiggja laun fyrir.“

Þá segir hún að hinn almenni neytandi finni ekki að eitthvað sé látið í staðinn fyrir greiðslu sóknargjalda nema ef eitthvað bjáti á eða þjónustu þurfi að fá. „Við ættum e.t.v. að fara að eins og frændur okkar Norðmenn og Svíar sem hafa þann háttinn á að utan kirkju fólk greiðir fyrir þjónustuna á meðan skráðir félagar gera það ekki.“ Agnes nefnir það hins vegar ekki hvaða þjónusta það er sem veitt er án endurgjalds hjá kirkjum landsins og hvað það er sem hún vill fara að rukka fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert