„Við höfum lítið orðið vör við hótanir í ár. Fólk er mjög forvitið og staðan er í raun þannig hjá okkur í dag að við gætum selt allan þorrabjórinn erlendis til fólks sem er áhugasamt,“ segir Dagbjartur Arilíusson, annar eigandi Brugghús Steðja, um viðbrögð við þorrabjór brugghússins í ár, Hval 2.
Hvalur 2 er bruggaður úr hreinu íslensku vatni, byggi og humlum, en taðreykt eistu úr langreiðum eru notuð til að bragðbæta hann. Hver bruggun inniheldur eitt eista og er bjórinn arftaki þorrabjórsins sem Steðji seldi í janúar í fyrra og innihélt hvalmjöl. Eistun eru verkuð eftir gamalli íslenskri hefð, léttsöltuð og síðan taðreykt.
Eins og mbl.is fjallaði um fyrr í dag hefur bjórinn vakið reiði erlendra dýraverndunarsinna, en fréttamiðillinn USA Today fjallaði um málið og vísaði í yfirlýsingu frá The Whale and Dolphin Conservation Society þar sem segir að notkun á hvalkjöti í mat sé ósiðleg og svívirðileg.
Dagbjartur segir gagnrýnina einungis hafa komið frá þessum eina aðila, og það hafi verið endurtekið í fjölda blaðagreina um bjórinn. „Meira er það ekki frá þessum kanti, annars eru þau ummæli sem hafa birst bara jákvæð. Fólk áttar sig á því að nota þarf allt hráefni, eins og forfeður okkar gerðu í gamla daga og þorrinn gengur út á.“
Mikla athygli vakti í fyrra þegar Heilbrigðiseftirlit Vesturlands hugðist banna sölu á þorrabjór Steðja. Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, heimilaði þó sölu hans og viku síðar hann uppseldur í Vínbúðum. Síðan þá hefur ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Vesturlands verið staðfest af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og sala á bjór úr hvalmjöli er því bönnuð.
Að sögn Dagbjarts hafa öll tilskilin leyfi verið fengin varðandi framleiðslu og sölu bjórsins í ár, en tuttugu þúsund flöskur verða framleiddar af bjórnum. Sala á Hval 2 hefst í Vínbúðunum frá og með bóndadegi 23 janúar.
Að sögn Dagbjarts er megináhersla lögð á íslenska markaðinn, og því fer bjórinn meira og minna allur í Vínbúðina. „Hins vegar er áhuginn erlendis það mikill að við erum að íhuga hvort við gerum meira af bjórnum eftir þorrann.“
Eistun eru fengin frá Hval hf, en þau voru unnin áfram svo þau hentuðu til brugggerðar. Að hans sögn hefur bjórinn mikla sérstöðu á bjórmarkaðnum, þar sem hann er gerður eftir nýrri uppskrift og er yfirgerjaður bjór eða í raun öl. Bjórinn er 5.1% í alc. „Takmarkað magn er hér á ferðinni þar sem ekki er til nóg af hráefninu sem gerir þennan bjór einstakan á heimsvísu.“
Von er á átta tegundum af þorrabjór í Vínbúðir landsins þann 23. janúar næstkomandi, á bóndadaginn. Er það sami fjöldi og í fyrra, en töluvert stökk frá árinu áður þegar aðeins fimm tegundir voru á boðstólnum.
Þær tegundir sem í boði verða þetta árið eru auk Hvals 2; Þorrakaldi, Þorragull, Þorraþræll, Einiberja Bock, Gæðingur, Surtur nr. 30 og Galar nr. 29 auk gjafaöskju Surts með þremur mismunandi gerðum í pakka.
Alls seldust um 41 þúsund lítrar af þorrabjór á síðasta ári, sem var mikil aukning frá árinu áður þegar salan var tæplega 31 þúsund lítrar. Fyrstu helgina í fyrra seldist rúmlega helmingur heildarmagnsins, eða um 23 þúsund lítrar. Að sögn Sigrúnar Óskar Sigurðardóttur, aðstoðarforstjóra ÁTVR, er búist við svipuðu magni í ár.
Sölu á þorrabjór lýkur á konudaginn, þann 21. febrúar nk. Að sögn Sigrúnar er bjórnum þá skilað til byrgja, sem farga honum eða ráðstafa á annan hátt.