Hvert og eitt langreyðareista sem notað er við bruggun þorrabjórs Brugghúss Steðja, Hval 2, vegur um 7-8 kílógrömm. Eistun eru aðeins stærri en körfubolti, að sögn Dagbjarts Arilíusarsonar, annars eiganda Steðja, og hver bruggun inniheldur eitt eista. Framleiddar verða tuttugu þúsund flöskur af bjórnum í ár.
Bjórinn er arftaki þorrabjórsins sem Steðji seldi í janúar í fyrra og innihélt hvalmjöl. Eistun eru verkuð eftir gamalli íslenskri hefð, léttsöltuð og síðan taðreykt. Auk þeirra er bjórinn bruggaður úr hreinu íslensku vatni, byggi og humlum.
Eins og mbl.is fjallaði um í gær hefur bjórinn vakið reiði erlendra dýraverndunarsinna, en fréttamiðillinn USA Today fjallaði um málið og vísaði í yfirlýsingu frá The Whale and Dolphin Conservation Society þar sem segir að notkun á hvalkjöti í mat sé ósiðleg og svívirðileg. Þá stóð í yfirlýsingu frá samtökunum að langreiður væri í útrýmingarhættu.
Rétt er þó að undir núverandi löggjöf er Íslendingum heimilt að veiða 154 langreiði á hverju sumri, og tegundin því ekki í útrýmingarhættu. Eistun sem Steðji notar í bruggunina eru fengin hjá Hval hf.
Dagbjartur sagði í samtali við mbl.is í gær að gagnrýnin væri einungis búin að koma frá þessum samtökum, en um þau hefði verið fjallað í ýmsum blaðagreinum. Þá sagði hann önnur viðbrögð aðeins hafa verið jákvæð. „Fólk áttar sig á því að nota þarf allt hráefni, eins og forfeður okkar gerðu í gamla daga og þorrinn gengur út á.“
Mikla athygli vakti í fyrra þegar Heilbrigðiseftirlit Vesturlands hugðist banna sölu á þorrabjór Steðja. Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, heimilaði þó sölu hans og viku síðar hann uppseldur í Vínbúðum. Síðan þá hefur ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Vesturlands verið staðfest af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og sala á bjór úr hvalmjöli er því bönnuð.
Frétt mbl.is: Blæs á gagnrýnisraddir um hvalbjór