Eistun á stærð við körfubolta

Hvalur 2 er bruggaður úr hreinu íslensku vatni, byggi og …
Hvalur 2 er bruggaður úr hreinu íslensku vatni, byggi og humlum, en taðreykt eistu úr langreiðum eru notuð til að bragðbæta hann. Photo/ Steðji brewery

Hvert og eitt langreyðareista sem notað er við bruggun þorrabjórs Brugghúss Steðja, Hval 2, vegur um 7-8 kílógrömm. Eistun eru aðeins stærri en körfubolti, að sögn Dagbjarts Arilíusarsonar, annars eiganda Steðja, og hver bruggun inniheldur eitt eista. Framleiddar verða tuttugu þúsund flöskur af bjórnum í ár.

Bjórinn er arftaki þorra­bjórs­ins sem Steðji seldi í janú­ar í fyrra og inni­hélt hvalmjöl. Eist­un eru verkuð eft­ir gam­alli ís­lenskri hefð, létt­söltuð og síðan taðreykt. Auk þeirra er bjórinn bruggaður úr hreinu íslensku vatni, byggi og humlum.  

Eins og mbl.is fjallaði um í gær hef­ur bjór­inn vakið reiði er­lendra dýra­vernd­un­ar­sinna, en fréttamiðill­inn USA Today fjallaði um málið og vísaði í yf­ir­lýs­ingu frá The Whale and Dolp­hin Conservati­on Society þar sem seg­ir að notk­un á hval­kjöti í mat sé ósiðleg og sví­v­irðileg. Þá stóð í yfirlýsingu frá samtökunum að langreiður væri í útrýmingarhættu.

Rétt er þó að undir núverandi löggjöf er Íslendingum heimilt að veiða 154 langreiði á hverju sumri, og tegundin því ekki í útrýmingarhættu. Eistun sem Steðji notar í bruggunina eru fengin hjá Hval hf. 

Dagbjartur sagði í samtali við mbl.is í gær að gagnrýnin væri einungis búin að koma frá þessum samtökum, en um þau hefði verið fjallað í ýmsum blaðagreinum. Þá sagði hann önnur viðbrögð aðeins hafa verið jákvæð. „Fólk átt­ar sig á því að nota þarf allt hrá­efni, eins og forfeður okk­ar gerðu í gamla daga og þorr­inn geng­ur út á.“

Mikla at­hygli vakti í fyrra þegar Heil­brigðis­eft­ir­lit Vest­ur­lands hugðist banna sölu á þorra­bjór Steðja. Sig­urður Ingi Jó­hanns­son, sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðarráðherra, heim­ilaði þó sölu hans og viku síðar hann upp­seld­ur í Vín­búðum. Síðan þá hef­ur ákvörðun Heil­brigðis­eft­ir­lits Vest­ur­lands verið staðfest af at­vinnu­vega- og ný­sköp­un­ar­ráðuneyt­inu og sala á bjór úr hvalmjöli er því bönnuð.

Frétt mbl.is: Blæs á gagnrýnisraddir um hvalbjór

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert