„Munaði aðeins nokkrum sekúndum“

Hér sést bifreiðin sem lenti í fyrra snjóflóðinu.
Hér sést bifreiðin sem lenti í fyrra snjóflóðinu. mynd/Pétur

Það fór betur en á horfðist þegar tvö snjóflóð fellu úr Súðavíkurhlíð nú síðdegis. Ökumaður sem var á svæðinu þegar fyrra flóðið féll slapp með skrekkinn. Hann hafði samband við sveitarstjórann sem fór að sækja hann. Skömmu eftir að þeir komust í öruggt skjól féll annað snjóflóð.

Pétur G. Markan, sveitarstjóri í Súðarvíkurhreppi, segir í samtali við mbl.is, að þarna hafi ekki munað nema hársbreidd að stórslys yrði. 

„Ég fékk símtal frá sveitunga sem tjáði mér það að hann hefði keyrt upp á snjóflóð; það skeikaði aðeins nokkrum sekúndum í sjálfu sér,“ segir hann.

„Það sem gerist er að flóðið fellur fyrir framan hann þannig að lukkan er að hann keyrir upp á flóðið í staðinn fyrir að lenda í því að fá það inn í hliðina,“ segir Pétur og bætir við að hann hafi í framhaldinu lagt af stað til að sækja viðkomandi. 

„Þegar það var búið að koma öllum í heila höfn ætluðum við að reyna að koma bílnum upp en þá féll annað flóð. Eins og stendur er Súðavíkurhlíðin lokuð.“ Aðspurður segir Pétur að snjóflóðin hafi verið miðlungsstór.

Þá segir hann að starfsmenn Vegagerðarinnar hafi náð að moka sig í gegn til að aðstoða við að losa bíla sem voru fastir Álftafjarðarmegin og Skutulsfjarðarmegin. Annars sé hlíðin lokuð og menn ætli að taka stöðuna á morgun. 

„Þetta lýsir betur vánni sem vofir yfir okkur með Súðavíkurhlíð. Í dag er þannig lagað ekkert að veðri og það áttu ekki margir von á þessu. En það segir okkur aftur að þetta er vágestur sem getur einfaldlega skollið á hvenær sem er,“ segir hann að lokum.

Tvö snjóflóð féllu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert