„Það var svo brjálað veður, eina leiðin var að fara með varðskipinu. Þetta var alveg svakalegt, við sigldum upp í storminn,“ segir ljósmyndarinn Ragnar Axelsson, RAX.
Hann er einn af ljósmyndurum Morgunblaðsins og mbl.is og var meðal þeirra fjölmiðlamanna sem fóru með varðskipinu Tý til Súðavíkur mánudaginn 16. janúar árið 1995 eftir að snjóflóð féllu á bæinn.
Á morgun eru tuttugu ár frá því að snjóflóð féllu í Súðavík. 14 manns fórust, þar af átta börn, en tólf manns komust lífs af. Ragnar rifjar upp dvölina í Súðavík en þar dvaldi hann í viku eftir að snjóflóðin féllu.
Þjóðin fylgdist með fréttum af náttúruhamförunum full skelfingar en fjölmiðlar fengu þó fyrst um sinn fá tækifæri til að festa hörmungarnar á filmu.
Ragnar segir að skelfilegt hafi verið að koma á staðinn. „Andrúmsloftið var dapurt og sorglegt og þjóðin var auðvitað öll í áfalli. Þetta er eitthvað sem situr í manni alla ævi, það skilur eftir kökk í hjartanu.“
Skelfilegt var að upplifa og sjá sorg heimamanna. Fjölmiðlafólki var vel tekið af fólkinu og segir Ragnar að hópurinn hafi gætt þess að sýna nærgætni. „Þú tekur kannski mynd af einhverju en það er ekki þar með sagt að hún birtist.“
Þegar hópurinn kom í Súðavík eftir langa siglingu með Tý voru fjölmiðlafólkið lokað af, eiginlega sett í stofufangelsi að sögn Ragnars. Svæðið þar sem flóðið féll og leit stóð yfir á hafði verið skilgreint sem hættusvæði og fékk fjölmiðlafólk ekki að mynda björgunarmenn við störf sín.
Ragnar segir að hann hefði viljað fá meira svigrúm til að festa atburðina á filmu. „Svona atburður er því miður hluti af mannkynssögunni. Hún verður skráð og ljósmyndun er hluti af þeirri skráningu. Björgunarmenn bjarga fólki og hlutverk fjölmiðla er að skrá söguna.“
„Ég setti filmu í myndavél eins björgunarsveitarmannsins og bað hann um að smella af fjórum myndum. Það er eina myndin sem til er af björgunarmönnunum að moka,“ segir Ragnar. „Ég hef farið víða um heiminn en ég hef hvergi kynnst neinu eins og hér, að það þurfi alltaf að byrja á því að hindra aðgang fjölmiðla.“
„Fjölmiðlafólk er alveg jafn sorgmætt og aðrir sem mæta á þessa staði. Það hefur stundum verið lenska að væna okkur um að vera með annarlegar hvatir, það er bara ekki þannig. Það er óþolandi að sitja undir því þegar það gerist.“
Þegar búið var að finna fólkið sem lenti í flóðunum fékk hópurinn leyfi til að fara út og virða svæðið fyrir sér. Ragnar segist skilja vel að ekki sé hægt að valsa um að vild við aðstæður sem þessar. Fjölmiðlar eru aftur á móti að skrá mannkynssöguna og því þarf að virða þá. „Þau augnablik, þegar verið er að leita, er svo mikilvægt að eiga í sögunni,“ segir Ragnar.
„Það er mjög þreytandi að vera alltaf í stappi við að skrá söguna, því ekki erum við að gera það að illum hug. Þetta er okkar hlutverk. Ljósmynd af atburði er svo stór hluti af sögunni,“ segir Ragnar.