Björgvin hættur sem sveitarstjóri

Björgvin G. Sigurðsson.
Björgvin G. Sigurðsson.

Björgvin G. Sigurðsson hefur látið af störfum sem sveitarstjóri Ásahrepps. Hann hefur verið ráðinn annar ritstjóri Herðubreiðar og mun sinna því ásamt Karli Th. Birgissyni, sem hefur verið ritstjóri frá upphafi.

Greint er frá starfslokum Björgvins í tilkynningu á vef Ásahrepps. Hún er svohljóðandi:

„Frá og með deginum í dag, 16. janúar 2015, hefur Björgvin G. Sigurðsson látið af störfum sem sveitarstjóri Ásahrepps.

Samkomulag var gert um starfslok Björgvins sem báðir aðilar eru ásáttir um. Björgvin fellur frá launum í uppsagnarfresti gegn því að starfslok eigi sér stað nú, og því var það sameiginleg niðurstaða hans og sveitarstjórnar að samstarfinu lyki nú.“

Egill Sigurðsson, oddviti  Ásahrepps, segir að þetta hafi verið niðurstaða beggja aðila. „Það eru vonbrigði að samstarfið hafi ekki orðið lengra, en það er sameiginleg niðurstaða okkar og Björgvins að því lyki nú,“ er haft eftir Agli.

Björgvin segir að hann hætti nú þakklátur fyrir skemmtilegan tíma. „Nú sný ég mér að öðrum verkefnum,“ er haft eftir Björgvini.

Uppfært kl. 18:49

Á vef Herðubreiðar er upplýst um ráðningu Björgvins sem ritstjóra. Þar er haft eftir Karli Th. Birgissyni að ráðningin sé í samræmi við áform um vöxt og eflingu útgáfunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert