Scott James Carcary var sjálfur mættur í Hæstarétt í morgun þar sem mál hans verður tekið fyrir. Carcary var dæmdur í fimm ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur í fyrra fyrir að hafa orðið fimm mánaða gamalli dóttur sinni að bana 17. mars 2013. Þá var honum gert að greiða íslenskri móður barnsins þrjár milljónir króna í bætur.
Scott James Carcary var ákærður fyrir stórfellda líkamsárás með því að hrista dóttur sína svo harkalega að hún hlaut blæðingu í heila sem leiddi til dauða hennar. Ítarlega var fjallað um aðalmeðferð málsins á mbl.is og má finna umfjöllunina hér.
Samkvæmt því sem kom fram við aðalmeðferð málsins fór móðir barnsins til nokkurra klukkustunda vinnu rétt fyrir sex sunnudaginn 17. mars 2013. Eftir rúma klukkustund leitaði Scott James til nágranna sinna þar sem barnið var meðvitundarlítið.
Ríkissaksóknari sagði að við mat á sönnun skipti máli framburður sérfræðilæknis sem framkvæmdi aðgerð á barninu að kvöldi 17. mars. Hann hafi séð að bláæðar voru rofnar í höfði barnsins og bláæðatengingar voru einnig í sundur. „Þegar þær tengingar eru rofnar þá safnast blæðingin fyrir og æðarnar fara í sundur um leið og barnið er hrist,“ sagði Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari.
Þá kom fram að það væri mat læknisins að þegar barnið var hrist svona harkalega og fékk þennan áverka þá hafi ekki liðið nema nokkrar mínútur þar til meðvitund þess skertist. Óumdeilt sé í málinu að Scott James var einn með dóttur sína þessa klukkustund, því komi ekki aðrir til greina.
Carcary fer fram á það fyrir Hæstarétti að hann verði sýknaður af öllum kröfum en til vara að refsingin verði lækkuð.