Sigríður J. Friðjónsdóttir, ríkissaksóknari, krafðist þess fyrir Hæstarétti í morgun að sakfelling yrði staðfest yfir Scott James Carcary og refsing hans þyngd. Carcary var í Héraðsdómi Reykjavíkur dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir að verða fimm mánaða dóttur sinni að bana.
Í málfluningi sínum sagði Sigríður að þegar barnið var flutt á sjúkrahús 17. mars 2013 hefði strax vaknað grunur um að barnið hefði verið hrist með þeim afleiðingum að heilinn gekk til í höfuðkúpunni, það hefði valdið heilablæðingu sem dró barnið til dauða. Grunurinn hefði vaknað þar sem engar upplýsingar voru um það að barnið hefði lent í umferðarslysi eða að það hefði fallið úr töluverðri hæð á höfuðið.
Hún sagði að stúlkan hefði verið heilbrigt barn fram að atvikum 17. mars og það megi meðal annars sjá með því að fara yfir sjúkraskrá barnsins.
Hvað varðar vörn verjanda Carcary um að móðir barnsins kynni að hafa veitt barninu umrædda áverka sagði Sigríður að ekki kæmi annað tímabil til greina en á milli klukkan 17.10 og 17.45 umræddan dag. Óumdeilt er að móðir barnsins fór með það á neðri hæð íbúðar þeirra kl. 17.10 og 35 mínútum síðar tók hún strætó til vinnu.
Sigríður sagði að íbúðin væri lítil og þrátt fyrir að Carcary hefði verið á efri hæð þá hefði varla getað farið framhjá honum ef eitthvað hefði gerst á neðri hæðinni. Þá liggi fyrir að ef barn verður fyrir jafn miklum áverkum og raun ber vitni í þessu máli þá missi það fljótt meðvitund og verði í raun aldrei eðlilegt eftir að hafa hlotið áverkana. Auk þessa hafi móðirin enga ástæðu haft til að skaða barn sitt. Dagurinn hafi verið góður og það sjáist á myndum sem teknar voru áður en hún fór til vinnu. Á þeim má ennfremur sjá að barnið var heilbrigt.
Hún sagði það liggja fyrir að barnið var sofandi þegar móðir þess fór í vinnuna og þegar hún hringdi heim þá grét það. Móðirin bað þá Carcary að fara út að labba með dótturina en það dugði ekki heldur því barnið grét enn þegar heim var komið. „Fljótlega eftir að þau koma úr þessum göngutúr, um klukkan sex, þá missti þessi skaplausi maður stjórn á sér,“ sagði Sigríður.
Í geðrannsókn kom fram að Carcary yrði aldrei reiður og kæmi sér ávallt undan átökum. Sigríður sagði að þarna hefðu komið upp aðstæður sem hann gat ekki flúið. Hann var einn með barninu. „Það er allt sem bendir til að þarna hafi eitthvað meira en lítið brostið, með þessum hörmulegu afleiðingum.“
Þá hafi komið fram að barnið hafi virst hrætt við föður sinn. Á umræddum ljósmyndum sem teknar voru þennan dag megi sjá barnið brosandi nema á tveimur en þá er það í fangi föður síns, og gráti. Vitni hafi einnig borið við að barnið hafi ávallt farið að gráta hjá föður sínum og jafnvel við það eitt að sjá andlit hans.