Baldur Guðmundsson og Einar Þór Sigurðsson hafa verið ráðnir fréttastjórar á DV og DV.is. Báðir hafa þeir starfað í nokkur ár á blaðinu. Ritstjórnarskrifstofur DV flytja um helgina úr Tryggvagötu í Kringluna. Verða skrifstofurnar á 6. hæð í stóra turninum.
Í DV í dag kemur einnig fram að Jóhann Hauksson, sem gegnt hefur starfi fréttastjóra, mun hér eftir verða ritstjórnarfulltrúi. Þá hefur Haraldur Guðmundsson verið ráðinn blaðamaður á DV.
Í lok síðasta árs var Hallgrími Thorsteinssyni, ritstjóra DV, sagt upp störfum. Við starfinu tóku Kolbrún Bergþórsdóttir, sem áður starfaði á Morgunblaðinu, og Eggert Skúlason. Þá var Hörður Ægisson, áður blaðamaður á Morgunblaðinu, ráðinn viðskiptaritstjóri blaðsins. Á sama tíma var „nokkrum starfsmönnum DV sagt upp“, líkt og það var orðað í tilkynningu.
Enn fleiri breytingar hafa orðið á ritstjórn DV að undanförnu. Jón Bjarki Magnússon lét í byrjun janúar af störfum sem blaðamaður þar. Hann sagði á þeim tímamótum að Björn Ingi Hrafnsson, aðaleigandi og útgefandi DV, hefði gerst sekur um trúnaðarbrest gagnvart sér. Nokkrum dögum fyrr sagði blaðamaðurinn Jóhann Páll Jóhannsson starfi sínu lausu.