Sáu sorgina í andlitum fólksins

Frá Kristján Maack, Jón Hauk­ur Stein­gríms­son, Hall­grím­ur Magnús­son og Björn …
Frá Kristján Maack, Jón Hauk­ur Stein­gríms­son, Hall­grím­ur Magnús­son og Björn Ólafs­son. Á mynd­inni eru einnig fleiri björg­un­ar­menn en ekki sést fram­an í þá. Myndin er tekin á Flateyri en nokkrir úr hópnum tóku einnig þátt í björgun í Súðavík. Rax / Ragnar Axelsson

„Við vissum ekkert hverju við áttum von á. Við sáum það bara í andlitum mannanna og fólksins að þetta var meira en við  höfðum nokkurntíma séð,“ segir Kristján Maack en hann var meðal þeirra björgunarmanna sem komu frá höfuðborgarsvæðinu og tóku þátt í að leit eftir að snjóflóðin féllu í Súðavík í janúar fyrir tuttugu árum.

Mönnunum beið erfið lífsreynsla við komuna í þorpið en störf þeirra næstu daga reyndu bæði á líkama og sál.

Mánudagurinn 16. janúar 1995 líður þjóðinni líklega seint úr minni. Í miklu illviðri sem geisaði á Vestfjörðum féll 200 metra breitt snjóflóð á mitt þorpið í Súðavík og hafnaði á fimmtán íbúðarhúsum við Túngötu, Nesveg og Njarðarbraut. 14 manns fórust, þar af átta börn, en tólf manns komust lífs af.

Fljótlega eftir að flóðið féll hófu heimamenn björgunarstörf og almannavarnarnefnd Ísafjarðar var gert viðvart. Síðar um morguninn komu fyrstu björgunarsveitarmennirnir frá Ísafirði á vettvang. Fjölgaði björgunarfólkinu eftir því sem leið á daginn og komu á fjórða hundrað manns að björguninni.

Í dag minnast landsmenn þess að tuttugu ár eru liðin frá flóðunum. Kristján ræddi við blaðamann mbl.is og rifjaði upp björgunarstörfin í Súðavík.

Mættu örþreyttum mönnum í frystihúsinu

Varðskipið Týr lagði af stað frá Reykjavík um miðjan dag þann 16. janúar 1995. Um borð voru meðal annars björgunarsveitarmenn, læknar, hjúkrunarfólk, fjölmiðlafólk og hjálpargögn. Að sögn Kristjáns tók siglingin rúmlega sólarhring í aftakaveðri. Skipið kom við á Patreksfirði og sótti þar veika stúlku. Var hún hífð á börum upp í skipið og flutt til Ísafjarðar og því næst var haldið áfram í Súðavík.

„Það var með harðfylgi sem skipstjórinn sigldi þessu í gegnum brimskaflana,“ segir Kristján. Afar vont var í sjóinn og voru flestir sjóveikir. Erfitt var að komast í land í Súðavík vegna veðurs og var fólkið flutt með gúmmíbátum upp í fjöruna við frystihúsið. 

Þegar í frystihúsið var komið hófust björgunarmennirnir handa við að undirbúa sig undir leitina. Þeir mættu örþreyttum mönnum sem höfðu staðið vaktina við leitina allt frá því rétt eftir að flóðið féll.  

„Helstu minningarnar eru andlit þessara manna sem voru komnir inn eftir að hafa verið úti í einhverja klukkutíma í aftakaveðri að moka og voru bara örþreyttir. Maður gat lesið úr andlitinu á þeim hvað þetta var átakanlegt allt,“ segir Kristján.

Vissu ekki hverju þeir áttu von á

„Við vorum fjarlægir þessu til að byrja með. Við sáum engan veginn aðstæður fyrr en við fórum út í flóðið. Veðrið var með þeim hætti að við rétt náðum að fara upp í frystihús og sáum ekkert yfir svæðið. Fæstir okkar höfðu komið í Súðavík og hvað þá um vetur. Við vissum ekkert hverju við áttum von á. Við sáum það bara í andlitum mannanna og fólksins að þetta var meira en við höfðum nokkurntíma séð,“ segir Kristján.

Allir sem fóru inn og út úr frystihúsinu þurftu að gera grein fyrir sér. Enn var töluverð snjóflóðahætta á svæðinu, íbúar höfðu ekki séð til fjalla í langan tíma og gerðu að sögn Kristjáns ráð fyrir hinu versta.

„Allan þennan tíma sáum við ekki hvernig var umhorfs í þorpinu. Veðrið var með þeim hætti að við eltum bara næstu slóð. Við klifruðum ofan í skurðinn sem búið var að moka, héldum áfram og síðan færðist skurðurinn niður eftir þorpinu,“ segir Kristján.

„Það eru margar hugsanir sem fylgja og einna helst eftir á. Þær leita kannski ekki á menn á meðan maður stendur í verkefni, þegar þau eru með þeim hætti að þau krefjast fullrar einbeitingar. Menn setja sig í þann gír og leysa það sem er fyrir framan þá,“ segir Kristján, aðspurður um þær hugsanir sem leituðu á hann þegar hann stóð úti í hlíðinni, mokaði og leitaði.

Heilu búslóðirnar í snjónum

Mjög erfitt er að moka við aðstæður sem þessar en í snjónum var steypa, heilu búslóðirnar, gler og annað úr húsunum sem flóðið skall á og tók með sér.

„Þetta er engan veginn snjór eins og við þekkjum hann, þegar hann er búinn að fara í gegnum tíu til fimmtán hús. Þetta er ekki snjór, þetta eru mörg hús, gaflar, tré og þök. Það krefst ákveðinnar hæfni að færa þetta til og kíkja undir,“ segir Kristján.

Ásamt því að moka og leita er einnig hægt að segja að björgunarfólkið hafi unnið rannsóknarvinnu á vettvangi. Tuttugu og tvö hús eyðilögðust í flóðunum, færðust úr stað og því átti björgunarfólkið til dæmis að láta vita ef það fann teppi af ákveðinni tegund eða lit, pappíra þar sem greina mátti nöfn og annað slíkt. Með þessu var hægt að átta sig á því hvort og þá hvert húsin hefðu færst og í kjölfarið var svæðið afmarkað.

„Við vorum að safna persónulegum munum fólks af heimilum. Það var sennilega átakanlegast. Fæstir af okkur komust í snertingu við hina slösuðu eða þá sem að létust, en tiltölulega fáa átti eftir að finna þegar við komum á svæðið,“ segir Kristján. Hann var þó meðal þeirra sem fundu nokkra látna í flóðinu.

Björgunarmennirnir af höfuðborgarsvæðinu voru um tvo sólarhringa í Súðavík eða þar til búið var að finna alla þá sem lentu í flóðinu. Enn var mikil snjóflóðahætta og ákveðið var að flytja fólk í burtu.

Fóru þeir því yfir á Ísafjörð þar sem þeir sátu fastir í fjóra daga vegna veðurs. Þeirra biðu mörg verkefni og mokuðu þeir meðal annars snjó, héldu götum opnum og börðu ís af bátum.

Eins og að upplifa sömu martröðina aftur

Björgunarmönnunum var boðin áfallahjálp og segir Kristján að Slysavarnarfélagið Landsbjörg hafi haldið vel utan um hópinn eftir að heim var komið. Áfallateymi aðstoðaði fólkið við að gera upp reynsluna og ræddu björgunarmennirnir um málið sín á milli.

„Ég notaði þá aðferð, svo þetta næði ekki alla leið að sálinni, að setja mig kannski ekki of mikið inn í persónulegar aðstæður fólksins sem varð fyrir þessu. Ég reyndi að halda einhverri fjarlægð, það voru svo margir að sinna fólkinu. Ég náði að brynja mig með því að setja mig ekki inn í þeirra persónulegu hagi. Ég gerði eins og ég gat og lét síðan aðra um hitt,“ útskýrir Kristján.

Þann 26. október sama ár féll snjóflóð á Flateyri og létu nítján manns lífið og fór Kristján einnig þangað til að aðstoða.

„Þetta var eins og að lifa sömu matröðina aftur. Maður fór í sömu fötin, á sama tíma sólarhringsins, fór með sömu mönnunum um borð í sama skipið. Þetta var svolítið skrýtið að upplifa þetta aftur,“ segir Kristján.

Er rofaði til í Súðavík blasti við mönnum sú hrikalega …
Er rofaði til í Súðavík blasti við mönnum sú hrikalega eyðilegging sem snjóflóðin ollu þar. Ragnar Axelsson
Súðavík eftir snjófljóðin.
Súðavík eftir snjófljóðin. Ragnar Axelsson / RAX
Í dag minnast landsmenn þess að tuttugu ár eru liðin …
Í dag minnast landsmenn þess að tuttugu ár eru liðin frá flóðunum. Þorkell Þorkelsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert