Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að Vilmundur Gíslason, framkvæmdastjóri Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra, segi rangt frá starfslokum forstöðukonu Reykjadals í frétt á mbl.is. Össur vakti athygli á því í pistli á Facebook-síðu sinni í morgun að forstöðukonan hefði verið rekin um leið og hún snéri til baka úr barneignarleyfi.
Össur skrifar í nýrri færslu: „Eftir honum [Vilmundi] er haft að aðeins sé „ráðið til eins árs í senn í Reykjadal, og forstöðukonan hafi því einfaldlega ekki fengið endurráðningu þetta árið. “
Forstöðukonan, sem ég hef aldrei hitt, hefur hins vegar í höndum bréf. Á því er svohljóðandi fyrirsögn: „Uppsögn.” Undir því standa þrjár línur. Þær byrja svona: „Þér er hér með sagt upp…”
Svo skrifar Össur: „Framkvæmdastjórinn Vilmundur Gíslason segir því ósatt í fjölmiðlum. Hvernig lítur það út fyrir stjórn félagsins? Það bætist ofan á að hann hefur í nafni hennar sagt upp vandaðri manneskju, sem hefur af ástríðu lagt drjúgan part af starfsævi, samtals 14 ár, í störf fyrir börn með fatlanir í Reykjadal – þar af sex sem vel þokkuð forstöðukona.
Það er hörmulegt að sjá félag, sem vinnur í almannaþágu og byggist á velvilja almennings, vinna með þessum hætti.
Stjórnin á engan kost í þessu máli annan en afturkalla uppsögnina.“
Frétt mbl.is: