Réttargæslumaður móður ungabarns sem lést 17. mars 2013 vakti athygli á því fyrir Hæstarétti í dag að verjandi Scotts James Carcarys sem dæmdur var í héraði vegna dauða stúlkunnar hefði látið óviðkomandi í té persónuupplýsingar um móðurina. Sagði hann þetta mjög óviðeigandi.
Fram kom í máli Magnúsar Hrafns Magnússonar, réttargæslumanns konunnar, að hæstaréttarlögmaðurinn Sveinn Andri Sveinsson hefði fengið gögn málsins í hendur eftir að dómur Héraðsdóms Reykjavíkur var kveðinn upp og að hann hefði í kjölfarið sent þau til Waney Squier sem er breskur prófessor í taugameinafræði við Oxford-háskóla. Hvorki Sveinn Andri né Wayne Squier eiga aðild að umræddu máli.
Magnús Hrafn sagði að í gögnum málsins væru mjög persónulegar upplýsingar um móður barnsins sem ekki hefðu átt að fara til annarra en þeirra sem tengjast málinu. Í því samhengi má nefna að þinghaldi í málinu var lokað þegar móðirin gaf skýrslu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Að öðru leyti var málið opið.
Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari nefndi þetta atriði einnig í seinni ræðu sinni og sagði rétt að velta því upp með hvaða heimild verjandi afhenti þessi gögn úr sakamálinu. „Hún virðist ekki til staðar í sakamálalögum.“
Inni í málinu fyrir Hæstarétti er tölvupóstur frá Squier þar sem hún gefur skoðun sína á skýrslu matsmanns. Sigríður sagði þetta tölvubréf dæma sig sjálft enda væru þær skoðanir sem þar væru settar fram fráleitar og stæðust enga skoðun. Squier virðist hafna tilvist ungbarnahristings (shaken baby syndrome) en fáir deili þeirri skoðun með henni.