Hvalur 2 er nýjasti bjórinn úr smiðju Brugghúss Steðja, en hann inniheldur meðal annars taðreykt eistu úr langreyði. Mbl.is fór á stúfana og kannaði hvað nemendum Háskóla Íslands þætti um þennan óvenjulega nýja þorrabjór.
Eins og mbl.is hefur fjallað um hefur bjórinn vakið reiði erlendra dýraverndunarsinna, en Dagbjartur Arilíusson, annar eigandi Steðja, blæs á gagnrýnisraddirnar og segir flesta átta sig á því að nýta eigi allt hráefni. Framleiddar verða tuttugu þúsund flöskur af bjórnum í ár, sem kemur í Vínbúðir landsins þann 23. janúar nk. Hver bruggun inniheldur eitt eista, en það vegur um 7-8 kílógrömm og er á stærð við körfubolta.