„Aligæsir hafa verið til staðar í sögu landsins frá landnámstíð. Þær eru nú taldar í útrýmingarhættu. Þær eru ófleygar vegna þess að búið er að breyta líkamsgerð fuglanna með ræktun.“
Þessar upplýsingar er að finna á ferðaþjónustuvefnum nat.is. Fyrir jólin fóru Blönduósingar að taka eftir sérkennilegum gæsum á vappi fyrir utan nýbyggt fuglaskoðunarhús og komu fram ýmsar kenningar um fugla þessa, ætt þeirra og uppruna. Þóttu margir kenna þarna afkvæmi grágæsar og hinnar alhvítu pekingandar. Ýmsar aðrar kenningar hafa verið nefndar sem of langt mál væri að fara út í. Hvað sem líður upplýsingum um hina íslensku aligæs þá hefur komið í ljós að þessi ræktaði stofn hefur ræktað sig sjálfur frá hátíðarmatarborðum landsmanna og er orðinn fleygur og dvelur nú í öryggi skotvopna-banns á vesturbakka Blöndu.
En svona til frekari upplýsingar þá er von á fyrstu grágæsum bæjarins frá Bretlandi í lok mars og verður fróðlegt þegar þessar fleygu alifuglagæsir hitta fjarskylda ættingja sem hafa ráðið hér ríkjum undanfarna áratugi.