Björgvin hafnar ásökunum um fjárdrátt

Björgvin G. Sigurðsson
Björgvin G. Sigurðsson mbl.is/Ómar Óskarsson

Björgvin G. Sigurðsson, sem nýlega lét af störfum sem sveitarstjóri Ásahrepps, hafnar þeim ásökunum um fjárdrátt sem bornar voru á hann í Fréttablaðinu í morgun.

Í yfirlýsingu sem Björgvin sendi fjölmiðlum segir hann að „[v]ið gerð samkomulags um starfslok mín á föstudaginn kom fram að skuld mín við hreppinn nam um einum mánaðarlaunum, að stærstum hluta vegna einnar fyrirframgreiðslu upp á 250 þúsund krónur frá í nóvember í fyrra. Sú greiðsla var rækilega merkt fyrirfram greidd laun til Björgvins og fjarri lagi að tilraun hafi verið gerð til að leyna henni með neinum hætti. Þvert á móti er færslan merkt sem slík í reikningi sveitarfélagsins.“

Þá segir hann það hafa verið „mistök og rangt af [sér] að biðja ekki um heimild frá oddvita vegna fyrirframgreiddra launa og ákvarðana um öll útgjöld. Því biðst [hann] afsökunar á, enda fór ég þar ekki að reglum um útgjöld.“

Yfirlýsing Björgvins í heild:

„Vegna umræðu um starfslok mín í Ásahreppi skal það tekið fram að ekki var um fjárdrátt að ræða af minni hálfu. 

Við gerð samkomulags um starfslok mín á föstudaginn kom fram að skuld mín við hreppinn nam um einum mánaðarlaunum, að stærstum hluta vegna einnar fyrirframgreiðslu upp á 250 þúsund krónur frá í nóvember í fyrra. Sú greiðsla var rækilega merkt fyrirfram greidd laun til Björgvins og fjarri lagi að tilraun hafi verið gerð til að leyna henni með nokkrum hætti. Þvert á móti er færslan merkt sem slík í reikningi sveitarfélagsins.

Aðrar færslur komu fram á nótum og var sú stærsta þeirra kaup á myndavél, ætluð til nota fyrir heimasíðu og fleira, og voru það mín mistök að bera ákvörðun um kaup á henni ekki undir minn yfirmann.  

Það voru mistök og rangt af mér að biðja ekki um heimild frá oddvita vegna fyrirframgreiddra launa og ákvarðana um öll útgjöld. Því biðst ég afsökunar á, enda fór ég þar ekki að reglum um útgjöld, Aldrei stóð annað til að en að þau útgjöld yrðu gerð upp sem laun til mín, líkt og merking á fyrirfram launagreiðslunni ber með sér.

Björgvin G. Sigurðsson.“

Í Fréttablaðinu er haft eftir Agli Sigurðssyni, oddvita Ásahrepps, að „þetta [sé] leiðindamál sem kom blessunarlega mjög fljótt upp á yfirborðið. Líkt og flest sveitarfélög og fyrirtæki gera þá er það ekki sami maður sem bókar, samþykkir og greiðir. Það kerfi virkaði sem skyldi í þessu máli.“

Segir Björgvin hafa dregið sér fé

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka