Fjölmargir læknar sem sögðu upp vinnu sinni þegar kjaradeila lækna stóð sem hæst íhuga nú framtíð sína og hvort þeir muni draga uppsögn sína til baka. Björn Logi Þórarinsson, sérfræðingur í lyflækningum og taugalækningum á Landspítalanum í Fossvogi, hefur þó ákveðið að draga uppsögn sína tilbaka.
Björn Logi segir að þótt töluvert sé í land með að læknar nái sambærilegum kjörum og starfsbræður þeirra á Norðurlöndunum sé samningurinn, sem læknar hafa samþykkt og felur í sér 20% launahækkun hið minnsta, skref í rétta átt og vel ásættanlegur.
Þrátt fyrir það segir hann deginum ljósara að ráðast þurfi í fjárfestingu til að skapa hér alvöruheilbrigðiskerfi. Sem dæmi nefnir hann að sá milljarður sem verið sé að veita aukalega til Landspítalans í ár myndi rétt duga fyrir því að taugadeild Landspítalans í Fossvogi, sem hann starfar á, gæti nálgast það þjónustustig sem þekkist á Vesturlöndum.
Þá segir Björn Logi afar jákvætt að finna fyrir því að íslenskir sérfræðingar sem starfi erlendis séu orðnir jákvæðari fyrir því að starfa hér á landi.