Nefndin bíður niðurstöðu umboðsmanns

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis kom saman til fundar í morgun og tók meðal annars fyrir erindi starfsmanna Fiskistofu vegna fyrirhugaðs flutnings stofnunarinnar til Akureyrar. Var á fundinum ákveðið að aðhafast ekkert fyrr en niðurstaða umboðsmanns Alþingis um sama efni liggur fyrir.

Umboðsmaður Alþing­is, Tryggvi Gunn­ars­son, sendi sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðarráðherra, Sig­urði Inga Jó­hanns­syni, bréf í nóvember síðastliðnum þar sem hann ósk­aði eft­ir upp­lýs­ing­um um á hvaða laga­grund­velli fyr­ir­hugaður flutn­ing­ur á Fiski­stofu byggi.

Starfs­menn Fiski­stofu sendu í sama mánuði stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd Alþing­is bréf þar sem þeir óskuðu eft­ir því að nefnd­in taki til skoðunar ákvörðun Sig­urðar Inga um að flytja höfuðstöðvar Fiski­stofu frá Hafnar­f­irði til Ak­ur­eyr­ar

„Þetta er í ferli hjá umboðsmanni Alþingis og meðan svo er aðhefst nefndin ekkert heldur bíður átekta og þess að umboðsmaður hefur komist að niðurstöðu,“ sagði Ögmundur Jónasson, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, í samtali við blaðamann mbl.is eftir fundinn í morgun, þar sem erindið var tekið fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert