Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis kom saman til fundar í morgun og tók meðal annars fyrir erindi starfsmanna Fiskistofu vegna fyrirhugaðs flutnings stofnunarinnar til Akureyrar. Var á fundinum ákveðið að aðhafast ekkert fyrr en niðurstaða umboðsmanns Alþingis um sama efni liggur fyrir.
Umboðsmaður Alþingis, Tryggvi Gunnarsson, sendi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Sigurði Inga Jóhannssyni, bréf í nóvember síðastliðnum þar sem hann óskaði eftir upplýsingum um á hvaða lagagrundvelli fyrirhugaður flutningur á Fiskistofu byggi.
Starfsmenn Fiskistofu sendu í sama mánuði stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis bréf þar sem þeir óskuðu eftir því að nefndin taki til skoðunar ákvörðun Sigurðar Inga um að flytja höfuðstöðvar Fiskistofu frá Hafnarfirði til Akureyrar
„Þetta er í ferli hjá umboðsmanni Alþingis og meðan svo er aðhefst nefndin ekkert heldur bíður átekta og þess að umboðsmaður hefur komist að niðurstöðu,“ sagði Ögmundur Jónasson, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, í samtali við blaðamann mbl.is eftir fundinn í morgun, þar sem erindið var tekið fyrir.