Miðstjórn Ungra jafnaðarmanna hvetur Björgvin G. Sigurðsson, varaþingmann Samfylkingarinnar, til að stíga til hliðar sem varaþingmaður.
Þetta kemur fram í ályktun sem miðstjórn Ungra jafnaðarmanna hefur sent frá sér.
Eins og fram hefur komið, sakar Egill Sigurðsson, oddviti Ásahrepps, Björgvin, sem er fyrrverandi sveitarstjóri Ásahrepps, um að hafa dregið sér fé og ráðstafað almannafé í eigin þágu. Björgvin sendi í gær frá sér tilkynningu þar sem hann hafnar ásökunum sveitarstjórnar.
Þá kom fram kom á vefsíðu Herðubreiðar í gær að Björgvin hefði ákveðið að gangast undir meðferð vegna áfengisneyslu og mun því ekki taka við starfi ritstjóra Herðubreiðar líkt og áformað hafði verið.
Ályktun Ungra jafnaðarmanna er svohljóðandi:
„Ungum jafnaðarmönnum er brugðið vegna frétta sem berast af varaþingmanni Samfylkingarinnar, Björgvini G. Sigurðssyni. Björgvin fór ranglega með opinbera fjármuni í starfi sínu sem sveitarstjóri Ásahrepps og brást þar með trausti almennings.
Mikilvægt er að skattgreiðendur standi í vissu um að opinberir fjármunir séu aðeins notaðir í almannaþágu en renni ekki í vasa opinberra starfsmanna. Í því samhengi skiptir ekki máli hvort að fjármunir eigi að stoppa þar við í styttri eða lengri tíma. Í ljósi þessa hvetja Ungir jafnaðarmenn Björgvin til að stíga til hliðar sem varaþingmaður Samfylkingarinnar uns hann nýtur aftur trausts flokks síns og almennings.
Að lokum vilja Ungir jafnaðarmenn óska Björgvini góðs bata og velfarnaðar.“