„Við teljum okkur hafa unnið faglega og af heimildum að gerð áhættumatsins og erum tilbúin til þess áfram og það eru okkur því vonbrigði með hvaða hætti Isavia hefur staðið að málum tengdum þessu verkefni,“ segir í lok greinargerðar sem send var meðal annars til innanríkisráðuneytisins um miðjan desember af fulltrúum sem sátu í vinnuhópi um áhættumat vegna fyrirhugaðrar lokunar á flugbraut 06/24 á Reykjavíkurflugvelli.
Þegar greinargerðin var rituð hafði vinnuhópurinn verið leystur upp án þess að hann hefði komist að formlegri niðurstöðu. Gagnrýnd er harðlega í greinargerðinni skýrsla sem Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, sendi frá sér í desember 2013 „með útreikningum á nothæfisstuðli fyrir Reykjavíkur- og Keflavíkurflugvelli samanlagða, sem engin fordæmi eru fyrir né heimild til í reglugerð um flugvelli“ sem byggi á Chicago-samningi Alþjóða flugmálastofnunarinnar sem Ísland sé aðili að. Þar hafi einnig verið reiknað með gildi fyrir hliðarvindsstuðul sem séu langt umfram það sem reglugerðin kveði á um.
Bent er á að Flugmálafélag Íslands og flugfélagið Mýflug hafi sent harðorða gagnrýni á innihald skýrslunnar til ráðherra og ráðuneytisstjóra innanríkisráðuneytisins auk forstjóra Samgöngustofu. Þá hafi öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna sent athugasemdir vegna skýrslunnar til forstjóra Isavia og Samgöngustofu. Skýrslan hafi engu að síður verið notuð sem megin stoðgagn skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar „til þess að afgreiða sem tilhæfulausar þær athugasemdir sem hagsmunaaðilar sendu inn vegna breytinga á deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar sem fól í sér lokun á flugbraut 06/24.“ Deiliskipulagið var síðan í kjölfarið samþykkt í borgarstjórn í byrjun apríl 2014.
Vildu fá gögn sem skýrslurnar væru byggðar á
Fram kemur í greinargerðinni að drög að áhættumati hafi legið fyrir í apríl á síðasta ári en vinnuhópurinn var skipaður í byrjun þess árs. Gerðar hafi verið athugasemdir við þau í sjö liðum af Samgöngustofu sem flestar hafi snúið að verklagi og framsetningu Isavia. Í síðasta liðnum hafi hins vegar verið kallað eftir frekari rökstuðningi fyrir niðurstöðu áhættumats. Það hafi orðið til þess að nýtt ferli hafi farið af stað. Tveir fundir hafi verið haldnir í hópnum í ágúst sem ekki hafi skilað niðurstöðu. Funda hafi átt í september en þeim fundi verið aflýst.
Loks hafi verið fundað í byrjun desember og þá verið kynntar skýrslur frá verkfræðistofunni Eflu sem enginn í vinnuhópnum hafi vitað að verið væri að vinna. Skýrslunum hafi verið lýst sem vinnugögnum fyrir hópinn en í kjölfarið hafi forstjóri Isavia sent út fréttatilkynningu um skýrslurnar og sama dag verið vísað í þær í afgreiðslu Reykjavíkurborgar á nýju skipulagi Hlíðarendasvæðisins sem rök fyrir því að í lagi væri að loka flugbraut 06/24.
Ennfremur segir að vinnuhópurinn hafi gert athugasemdir við skýrslur Eflu, meðal annars vegna þess að útreikningar í henni vegna nothæfisstuðuls væru hærri en í fyrri útreikningum, og beðið um að fá aðgang að þeim gögnum sem lægju til grundvallar þeim og útreikningunum sem þar kæmu fram en ekki aðeins niðurstöðunum. Verkefnisstjóri Isavia hafi hins vegar sagt að óska yrði eftir þeim á grundvelli upplýsingalaga.
Eftir talsverðar umræður hafi verkefnisstjórinn kveðið upp úr að frekari vinna innan hópsins myndi ekki skila árangri og að hann ætlaði að óska eftir því að hópurinn yrði leystur upp. Í framhaldinu hafi borist tölvupóstur frá verkefnisstjóranum þess efnis að ákveðið hafi verið að gera nýtt áhættumat með nýjum hópi og vísað í ágreining sem hafi lýst sér í því að hluti fulltrúa á fundinum í byrjun desember hafi talið gögn sem kynnt hafi verið ótrúverðug.