„Eðluæði“ sprengir ostasöluna

Rjómaosturinn er lykilatriði við eðlugerð.
Rjómaosturinn er lykilatriði við eðlugerð.

Sala á rjómaosti frá Mjólkursamsölunni jókst um 25% í desember síðastliðnum. 10% söluaukning var á vörunni yfir árið í heild en Aðalsteinn H. Magnússon, sölustjóri hjá MS, segist tengja sölukipp haustsins við rétt sem kallast eðla.

Eðla er heit ídýfa fyrir snakk sem samanstendur í grunninn af rjómaosti, salsasósu og rifnum osti þó ýmsu öðru megi bæta við. Eðlan öðlaðist vinsældir fyrir tilstilli kynjaskiptu Facebook hópanna Beauty Tips og Sjomlatips þar sem þúsundir Íslendinga ræða saman um allt milli himins og jarðar.

„Það er bein tenging við þennan rétt en hann er búinn að vera til lengi. Núna í haust fóru framhaldsskóla- og háskólanemendur hinsvegar að kveikja á þessu og við heyrðum af því að þetta hefði orðið hálfgert æði í kringum prófalesturinn,“ segir Aðalsteinn.

Hann segist hafa frétt að námsmenn sem vildu gera vel við sig í prófatíðinni mættu í verslanir gagngert til að kaupa inn í þennan rétt.

Hvort „eðluæðið“ haldi áfram að vaxa og dafna segir Aðalsteinn óljóst.

„Er ekki bara um að gera að njóta þess á meðan það er?“

„Eðlan“ tekin á næsta stig

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka