Samtökin '78 furða sig á skipan Framsóknar og flugvallarvina á Gústafi Adolf Níelssyni sem varamanni í mannréttindaráð Reykjavíkurborgar. „Það er ekki nóg með að Framsókn og flugvallarvinir skipi einn háværasta hatursmann hinsegin fólks á Íslandi um árabil til ábyrgðarstarfa í ráði sem fer með málefni viðkvæmustu hópa samfélagsins - hópa sem Gústaf Adolf Níelsson hefur hingað til sýnt andúð, hroka og fyrirlitningu. Nei, Framsókn og flugvallarvinir gera meira en það. Þau hreinlega leggja lykkju á leið sína og skipa mann sem er flokksbundinn í öðrum stjórnmálasamtökum. Til þess að láta 'rödd hans heyrast' eins og þau orða það svo snyrtilega,“ stendur á Facebook-síðu samtakanna.
„Ef að raddir haturs, þröngsýni og hinseginfóbíu eru þær raddir sem Framsókn og flugvallarvinum finnst ástæða til að hampa - og það á sjálfum vettvangi mannréttindaráðs - líta Samtökin '78 svo á að Framsókn hafi sent hinsegin fólki fingurinn, svo pent sé til orða tekið, og sé nákvæmlega sama um hagi þess og líf.“
Samtökin '78 segjast hafa miklar áhyggjur af „vegferð þeirri sem Framsóknarflokkurinn hefur lagt upp í og krefst þess nú að forysta hans geri hreint fyrir sínum dyrum. Það er nefnilega ljóst að ef þetta er sú stefna sem Framsókn hyggst framvegis marka í málefnum hinsegin fólks - ja, þá á hún ekki mikið við Samtökin '78 að ræða.“