Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina hafa ákveðið að draga til baka skipan Gústafs Adolfs Níelssonar, varafulltrúa síns í mannréttindaráði Reykjavíkurborgar. Kosning Gústafs hefur vakið mjög hörð viðbrögð innan Framsóknarflokksins og víðar.
„Stefna Framsóknarflokksins og flugvallarvina er skýr,“ segir í fréttatilkynningu.
„Við berjumst fyrir mannréttindum, virðingu fyrir einstaklingnum og fjölskyldunni. Við höfnum hvers konar mismunun sem gerir greinarmun á fólki t.d. eftir kynþætti, kynferði, tungu, trú, þjóðerni, kynhneigð, búsetu eða stjórnmálaskoðunum. Við munum ávallt verja skoðana- og tjáningarfrelsi, trúfrelsi og friðhelgi einkalífs.
Skipun varamanns í mannréttindaráð Reykjavíkurborgar í gær er ekki í samræmi við stefnu Framsóknarflokksins og voru því mistök af okkar hálfu.“
Gústaf sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að oddviti Framsóknar og flugvallarvina hefði haft samband við sig í desember og beðið hann að taka þetta að sér. „Þetta kom mér svolítið í opna skjöldu því ég er ekki í Framsóknarflokknum heldur Sjálfstæðisflokknum,“ segir Gústaf Adolf og bætir við að oddvitanum hafi hins vegar þótt mikið koma til skrifa hans í Morgunblaðinu að undanförnu og því sett sig í samband við hann.
Greta Björg Egilsdóttir tekur sæti varamanns í mannréttindaráði Reykjavíkurborgar.